Sjálfboðaliðar hafa hreinsað 85 rúmmetra af rusli á Rauðasandi

Rusl hreinsað. Mynd af heimasíðu umhverfisstofnunarinnar.

Á laugardaginn fyrir viku fór fram fjöruhreinsun á Rauðasandi. Hreinsunin hefur verið haldin á hverju ári síðan 2015 og er samstarfsverkefni Hafna Vesturbyggðar, landeigenda á Rauðasandi, Náttúrustofu Vestfjarða og Umhverfisstofnunar. Síðan 2015 hafa 85 rúmmetrar af rusli verið hreinsað á Rauðasandi.

Árlega er óskað eftir sjálfboðaliðum af svæðinu til að aðstoða við hreinsunina og hefur þátttakendum fjölgað ár frá ári. Metþátttaka var í ár en alls komu 29 einstaklingar að verkefninu.

Mest af ruslinu kemur frá sjávarútvegi, fiskikör og fiskikassar, baujur og bobbingar, gömul net og netakúlur. Einnig var talsvert um ílát úr plasti, stór sem smá. Hreinsunardagurinn í ár var einn besti dagur sumarsins veðurfarslega séð.

,,Hluti af fjöruhreinsuninni er unnin í tengslum við OSPAR-samninginn sem Ísland er aðili að en Rauðisandur er ein þeirra fjara á Íslandi sem árlega eru vaktaðar í tengslum við hann. OSPAR hluti verkefnisins er unninn á þann hátt að afmarkaður hefur verið 100 metra kafli á ströndinni sem hreinsaður er árlega, allt rusl greint og talið og niðurstöðurnar skráðar í gagnagrunn OSPAR að því loknu. Náttúrustofa Vestfjarða sér um vettvangsvinnuna fyrir hönd Umhverfisstofnunar. OSPAR samningurinn gengur út á verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, meðal annars með því að draga úr mengun frá landi og uppsprettum á hafi. Á hverju ári berst mikið af rusli í hafið og safnast saman á hafsbotni, úti á opnu hafi eða rekur upp í fjörur og þarf mjög víðtækt samstarf að koma til við lausn á vandamálinu, meðal annars með forvörnum.

Verkefnið er einnig eitt af Bláfánaverkefnum Vesturbyggðar en Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun með það meginmarkmið að vernda lífríki haf- og strandsvæða, draga úr umhverfisáhrifum, bæta öryggi og efla umhverfisvitund.’’ Úr frétt af síðu Umhverfisstofnun Íslands.

Ísabella
Isabellaosk22@gmail.com

DEILA