Þær eru ýmsar náttúruperlurnar á Vestfjörðum sem eru til sölu núna. Vigur vita allir um en nú eru jarðirnar Reykjarfjörður Fremri og Reykjarfjörður Neðri við Arnarfjörð einnig til sölu. 100% eignarhlutur er til sölu í Reykjafirði Fremri en það er jörðin sem er innar í dalnum. Landið nær upp á fjallstopp og þar eru um 3,4 hektarar af ræktuðu landi. Hlunnindin eru ekki af verri endanum heldur jarðhiti sem kyndir glæsilegan sumarbústað á landinu og heitan pott við hann. En ekkert rafmagn í bústaðnum. Hann er 43 fm finnskt bjálkahús með 10 fm svefnlofti og stór sólpallur er allt í kringum bústaðinn. Allir sem hafa farið um þetta svæði þekkja náttúrufegurðina sem einkennir Arnarfjörð, fossana landið og berin.
Reykjarfjörður er í um 20 mínútna aksturfjarlægð frá Bíldudal og við Neðri bæinn er sundlaug rétt við veginn, þar sem vinsælt er að koma við og baða sig aðeins áður en leiðinni er haldið áfram upp á Dynjandisheiði. Sundlaugin er steypt, það er heitt vatn í henni allt árið og við hana standa búningsklefar sem Vesturbyggð lét byggja fyrir nokkrum árum. Rétt fyrir ofan steyptu laugina er hlaðin náttúrulaug og heitt vatn rennur ótakmarkað í gegnum báðar laugarnar.
Allar upplýsingar má fá hjá Steinunni hjá Fermetra, fasteignasölu og leigumiðlun. „Það hafa komið nokkrar fyrirspurnir og fólk er svona að þreifa fyrir sér,“ sagði Steinunn þegar BB hafði samband við hana. „Það eru nokkrir sem eru að sýna eigninni áhuga, allt Íslendingar, en við erum ekki að fá þau viðbrögð sem við vonuðumst eftir,“ segir hún.
Við Reykjarfjörð Neðri er einnig íbúðarhús frá árinu 1940 sem er á tveimur hæðum en skráð 92,4 fermetrar. Á efri hæðinni er eldhús með nýlegri innréttingu og gaseldavél, stofu og tveimur herbergjum. Á neðri hæðinni er óklárað rými og klósett. Húsið er kynnt með pottofni frá heita vatninu en ekkert rafmagn er í húsinu nema í gegnum ljósavél. Á þessari jörð er einnig fjárhús sem muna fífil sinn fegurri og 4,4 hektarar af ræktuðu landi.
Sæbjörg
bb@bb.is