Í vetur var kynnt í Grunnskólanum á Flateyri að áætlað væri að bjóða út endurbætur á skólalóðinni, enda er lóðin sú eina hjá grunnskólum Ísafjarðarbæjar sem ekki hefur verið endurnýjuð í töluverðan tíma. Fljótlega spurðist þó út meðal foreldra grunnskólabarna að áætlað væri að flytja leiktæki frá leikskólanum Grænagarði og að skólanum. Þessar fréttir komu flatt upp á marga, enda töldu flestir að áformum um að flytja leikskólabörnin í skólahúsnæðið væri slegið á frest á meðan að samráðshópur sem myndaður var um skólastarfið ynni sitt starf til enda. Hóað var til fundar og foreldrar og samráðshópur fóru þess á leit að teikningar að nýju lóðinni yrðu í það minnsta kynntar fyrir foreldrum, áður en þær væru sýndar börnunum. Ástæðan að baki þessari beiðni var sú að mikið rask hefur hlotist af sífelldum áformum um að flytja leikskólann í grunnskólann, rask, sem börnin hafa ekki farið varhluta af og töldu foreldrar að óþarfi væri að koma börnunum í uppnám að óþörfu.
Ekki var þó farið að þeim óskum heldur kynnti fulltrúi skóla- og tómstundaráðs teikningarnar fyrir börnunum án samráðs við foreldra. Annar fundur var þó haldinn síðar fyrir foreldra, og þá höfðu leiktækin frá Grænagarði verið fjarlægð af teikningunum. Góður rómur var gerður að þessum fyrirætlunum enda löngu kominn tími á endurbætur á skólalóðinni. Verkið var svo boðið út nú í endann á maímánuði. Eitt tilboð barst Ísafjarðarbæ. Það var frá Heiðarfelli ehf. og tilboðið hljómaði uppá 37.625.630 krónur og með verkkaupum yrðu það 45,6 milljónir í heildina. Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2018 gerði ráð fyrir 30 milljónum króna í verkið svo tilboðið var um 15 milljónum hærra. Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs lagði því til að tilboðinu yrði hafnað og verkið boðið út að nýju árið 2019. Við þeirri ósk varð bæjarráð Ísafjarðarbæjar á fundi sínum þann 25. júní síðastliðinn svo enn verður bið á því að skólalóðin á Flateyri verði endurnýjuð.
Sæbjörg
bb@bb.is