Nýr veitingastaður í Reykhólahreppi

Á 380 Restaurant er lögð áhersla á úrvalshráefni og að bjóða upp á mat úr héraðinu. Mynd: 380 Restaurant.

Veitingastaðurinn 380 Restaurant opnaði um miðjan júní mánuð síðastliðinn í Reykhólahreppi. Veitingastaðurinn er staðsettur í sama húsi og Hólabúðin og eru rekstraraðilar hjónin Ása Fossdal og Reynir Þór Róbertsson sem rekið hafa búðina síðastliðin þrjú ár. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar að sögn Reynis Þórs og hefur verið fullbókað síðustu kvöld. „Við erum mjög sátt við viðtökur ferðamanna og heimamanna og höfum þurft að vísa fólki frá að undanförnu því það hefur verið fullt hjá okkur. Við erum með hádegisverðarhlaðborð frá 11:30 til 13:30 þar sem við erum með kjötrétt, fiskrétt, nýbakað brauð og salatbar og svo í haust munum við bjóða upp á ærkjöt í hamborgurunum okkar, þegar kindurnar eru komnar af fjöllum. Og svo verður selkjöt í boði af og til. Einkenni okkar verður að vera með mat úr héraði og krafa frá okkur sjálfum að vera bara með úrvalshráefni, hráefnið skiptir öllu máli.“ segir Reynir í samtali við BB.

Að sögn Reynis þá tekur staðurinn 26 manns í sæti en hægt er búa svo við að 50 manns geti borðað á staðnum ef pantað er fyrirfram. Reynir hvetur fólk sem hafi áhuga á að kíkja til þeirra að hringja á undan sér og panta borð svo það þurfi ekki að vísa því frá.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA