Nýr samningur við Fablab á Ísafirði

Frá undirritun samningsins um Fablab 2018. Mynd: Aðsend.

Fab Lab á Ísafirði gerði á dögunum nýjan samning við bæjarfélögin Bolungarvík, Súðavík og Ísafjarðarbæ, Nýsköpunarmiðstöðina og Menntaskólann á Ísafirði sem gerir það að verkum að reksturinn er tryggður næstu þrjú árin.

Þórarinn Bjartur Breiðfjörð Gunnarsson, verkefnisstjóri Fab Lab á Ísafirði segir að starfsemin muni haldast áfram óbreytt að mestu leyti í kjölfar þessa nýja samnings. „Gerum ráð fyrir að starfsemin haldist óbreytt og við getum haldið áfram að efla hana. Fljótlega munum við fara að hjápa til við Lýðháskólann á Flateyri og komum til að halda áfram samstarfinu við Blábankann á Þingeyri og við Húsið-Creative Space á Patreksfirði. Svo erum við að vinna með grunnskólanum á Drangsnesi, það er svona sem við erum að gera á Vestfjörðum.“ segir Þórarinn.

Þórarinn segir að það sé svo einnig starfsemi í Reykjavík sem er alltaf að aukast. „Við eigum í samstarfi við Fab Lab á Íslandi og erum að fara að vinna með Reykjavík Tool Library, skoða hvað þau eru að gera og hjálpa þeim aðeins. Verðum í samstarfi við framtíðarsetrið í Tækniskólanum í Reykjavík einnig. Þetta er svona er frekar óformlegt, erum bara að aðstoða og sjá hvað við getum aðstoðað með. Þetta er hluti af þessari tengslamyndun sem við erum alltaf að skoða“ segir Þórarinn.

Að sögn Þórarins mun svo starfið með skólum Ísafjarðar halda áfram sem og almennur opnunartími. „Við munum halda áfram með menntahlutann, með kennslu í grunn- og framhaldsskólanum á Ísafirði og bjóðum upp á atvinnustuðning og stuðning við frumkvöðla. Bjóðum fram aðstoð við þá sem vantar aðstöðu og búnað, vinnum það með Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Við höldum almennum opnunartíma áfram, verðum með opið þrisvar í viku. Erum í samtali við Fræðslumiðstöðina að halda námskeið á þeim tímum. Opnunartímarnir eru mánudagar, þriðjudagar og fimmtudagar, klukkan 15:00 til 18:00 á mánudögum og 15:00 til 20:00 á fimmtudögum.“ segir Þórarinn að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA