Mikið að gera hjá áhöfn Gunnars Friðrikssonar

Gunnar Friðriksson. Mynd: Björgunarfélag Ísafjarðar.

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson á Ísafirði var kallaður út rétt fyrir hádegi í gær vegna ferðalanga sem voru strandaglópar í Veiðileysufirði en mjög hvasst var á svæðinu. Þetta var í þriðja skiptið á fimm dögum sem Gunnar Friðriksson er kallaður út í verkefni en í einu tilfellinu var verkefnið afturkallað.
Skipið hefur verið kallað út sex sinnum í júlí, það er því óhætt að segja að það sé alltaf nóg að gera hjá áhöfn skipsins yfir sumarið.

Teitur Magnússon, vélstjóri á Gunnari Friðrikssyni og stjórnarmeðlimur í Björgunarfélagi Ísafjarðar, sagði blaðamanni BB að í gær hafi verið um að ræða ferðalanga sem voru inni í Veiðileysufirði og ekki hægt að nálgast þau með ferðaþjónustubát vegna mjög slæms veðurs. „Þá var ákveðið að nota Gunnar til að nálgast þau. Þetta gekk allt vel fyrir sig, það var farið rétt fyrir klukkan 13:00 og komið í land seinnipartinn. Það var alveg bálhvasst og leiðindaveður.“ segir Teitur.

Teitur segir að sumarið sé alltaf mjög strembið. „Þannig að við erum orðnir nokkuð sjóaðir í þessu. Það getur stundum reynst erfitt að manna bátinn vegna sumarfría, menn úti um allt og ekki í bænum en þetta hefur gengið nokkuð vel fyrir sig að undanförnu. Um er að ræða ýmis verkefni líkt og að sækja ferðamenn á Hornstrandir og að sinna sjómönnum almennt. Og svo eins og í síðustu viku þegar það kviknaði í strandveiðibát og við vorum sendir af stað útaf því. Svo vorum við kallaðir út síðastliðinn föstudag vegna slasaðrar manneskju í Hlöðuvík en í samráði við lækni var ákveðið að sækja hana morguninn eftir.“ segir Teitur.

Að sögn Teits þá eru útköllin metin hvert fyrir sig og hversu mikil neyðin er. „Ef við getum þá reynum við frekar, þ.e. ef það er ekki þeim mun alvarlegra atvik, að senda ferðaþjónustubát. Ef neyðin er ekki mikil. Það er oft hentugra, því ef við segjum að við séum kannski kallaðir út klukkan 13:00 en svo er áætlanabátur á ferð klukkan 15:00 þá er betra að hann fari ef það er ekki mjög aðkallandi. En auðvitað förum við í neyð.“ segir Teitur að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA