Mestur hiti á Patreksfirði síðastliðinn sunnudag

Sólin skein glatt síðastliðinn sunnudag á Patreksfirði og mældist mestur hiti þar á landinu. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Veður var afar gott á landinu síðastliðinn sunnudag og fór hiti víða yfir 20 gráður. Hitinn mældist þó mestur á sunnanverðum Vestfjörðum, nánar tiltekið á Patreksfirði þar sem hann mældist 24,7 gráður þegar mest var. Vakti þetta mikla kátínu bæjarbúa sem notuðu tækifærið og nutu veðurblíðunnar ýmist í sundlaug bæjarins, húsagörðum og heitum pottum.

Veðrið hefur verið einkar leiðinlegt í sumar á svæðinu og var þessi dagur því kærkomin og minnti heimamenn á að það væri í raun og veru sumar. Veðrið var þó heldur einkennilegt en það blés vel og þurfti fólk því að finna skjól til að njóta hitans. Um seinnipartinn og um kvöldið var þó orðið vel skýjað og rigndi örlítið um kvöldið sem er meira í takt við hvernig sumarið hefur verið.

Elstu menn bæjarins voru sammála um að slíkur hiti er ekki algengur á Patreksfirði sem er þekktur fyrir svokallaða innlögn þar sem sjávarvindur tekur að blása inn fjörðinn síðla morguns og oft af miklum krafti. Þó minntist einn sem þekkir svæðið vel að árið 1984 hafi komið tveir dagar í röð með 25 stiga hita og engri innlögn enda hafi verið hæfileg austanátt sem hafi haldið við á móti innlögninni. Sagði hann að það hefðu verið eftirminnilegir dagar.

Nú er bara að vona að fleiri svona dagar líti dagsins ljós en margir binda vonir við að ágúst mánuður verði betri veðurfarslega séð heldur en júní og júlí.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA