Margt í boði í Kaffi Norðurfirði

Þær Lovísa og Sara reka Kaffi Norðurfjörð. Mynd: Aðsend.

Vinkonurnar Lovísa og Sara búa yfir sumartímann í Norðurfirði og reka þar kaffihús. Sumarið í ár er það fjórða sem þær sjá um rekstur kaffihússins og hefur gengið vel, líkt og fyrri sumur. Lovísa sagði blaðamanni BB að þær hafi dottið niður á þetta á sínum tíma, hent sér í djúpu laugina og sjá ekki eftir því. „Við erum hér í Norðurfirði því þetta er einn fallegasti staður á landinu, við myndum ekki vilja vera staðsettar með svona starfsemi við hinn gullna hring. Við erum bara tvær að standa í þessu og gerum allt frá grunni, allar súpur, kökur og brauð. Þetta nægir tveimur manneskjum ágætlega með góðri hjálp frá fjölskyldu og vinum. Við erum með morgunmat, hádegismat, kaffi og kvöldmat. Við opnum yfirleitt klukkan 12 í hádeginu ef við erum ekki með pantaðan morgunmat, og erum svo með opið eldhús til klukkan 21:00 og svo stundum eitthvað frameftir ef þannig stendur til. Þetta er sem sagt matur, kaffi og bar og í raun félagsmiðstöð má segja. Svo er æðislegt að sitja hér og fylgjast með strandveiðiköllunum landa við bryggjuna.“ segir Lovísa.

Þær segja að Norðurfjörður sé falin perla og fólk þurfi að hafa mikið fyrir því að komast þangað. En leiðin er afar falleg að þeirra mati og svo er ýmislegt sem laðar að, fallegar gönguleiðir og auðvitað Krossneslaugin.

Þær vinkonur eru með matseðil sem þær bjuggu til út frá því sem þeim finnst gott og bjóða til dæmis upp á sælkerabakka með pylsum og ostum, fiskisúpan þeirra er vinsæl, svo eru í boði lambasteik og hamborgarar svo eitthvað sé nefnt auk mikils úrvals af kökum og kaffidrykkjum. Auk þess eru þær með ullarvörur frá fólki úr sveitinni til sölu, meðal annars frá einum syninum af Steinstúni, honum Gísla.

Lovísa segir að mikið fjör verði hjá þeim um verslunarmannahelgina næstkomandi. „Við köllum það Nábrókina 2018. Það verða tónleikar með Melasystrum, mýrarbolti, sveitaball með Blek og Byltum og auðvitað varðeldur.“ segir Lovísa að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA