Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði, í samstarfi við menningarmiðstöðina Edinborg, bjóða til listamannaspjalls í Edinborgarsal fimmtudaginn 5. júlí klukkan 17. Þar segja finnsku tónlistarmennirnir Tommi Hyytinen og Johanna Eränkö (Hyytinen) frá verkum sínum, en þau hafa undanfarnar vikur dvalið í gestavinnustofunum á Engi. Leikin verða eldri verk Johönnu, ásamt því sem þau gefa innsýn í nýjar hugmyndir sem hafa vaknað á Ísafirði. Þau segja einnig frá tengslum sínum við Ísland og vilja gjarnan nota viðburðinn til samskipta við íbúa svæðisins og aðra listamenn.
Tommi Hyytinen spilar á franskt horn og leikur með Finnsku útvarps sinfóníuhljómsveitinni. Hann kennir einnig við Sibelius háskólann í Helsinki, þaðan sem hann er með doktorsgráðu í tónlistarfræðum. Tommi hefur skrifað tvær bækur um tónlistarmenn, þar sem áhersla hefur verið lögð á líkamsstjórn blásturshljóðfæraleikara og líkamlegt- og andlegt heilbrigði.
Johanna Eränkö (Hyytinen) er tónskáld og tónlistarkona. Um þessar mundir vinnur hún sjálfstætt sem tónskáld og við útsetningar fyrir fiðlu. Hún er með meistaragráðu frá Háskólanum í Helsinki og hefur nýverið hafið doktorsnám. Í því rannsakar hún tvíræðni tenórraddarinnar í nýrri óperu Kaija Saariaho. Johanna hefur aðallega samið kammertónlist fyrir hljómsveitir en hefur líka áhuga á söngtónlist.
Johanna og Tommi sóttu um að komast í gestavinnustofur ArtsIceland til að vinna með það hvernig þau geta fært nýjar hugmyndir inn í tónlistarflutning sinn og einnig hvernig þau spila og semja. Johanna er góðvinkona Hennu-Riikku Nurmi sem er ísfirðingum vel kunn eftir að hafa búið í bænum og kennt dans við góðan orðstýr um árabil. Henna fékk þá hugmynd að þau gætu komið í vinnudvöl á Ísafjörð þar sem þau gætu unnið að sameiginlegu verki sem fléttaði saman tónlist og dans. Johanna og Tommi segja það hafa hljómað spennandi að vinna með tónlist sína í gegnum hreyfingu og dans, að finna eitthvað nýtt og einstakt við það að yfirgefa þægindarammann. Þau eru bæði hrifin af hugmyndinni um heildræna nálgun við tónlist yfir höfuð og þessi hugmynd leit út fyrir að vera vel til þess fallin að víkka sjóndeildarhringinn. Að auki sáu þau færi á því að gefa sér gæða-tíma til að vinna að listsköpun sinni í fallegu, náttúrulegu, nýju umhverfi með nóg rými til athafna.
Allir eru velkomnir á listamannaspjallið, enginn aðgangseyrir og léttar veitingar í boði. Spjallið fer fram á ensku.
Sæbjörg
bb@bb.is