Héraðssambandið Hrafna-Flóki á sunnanverðum Vestfjörðum tók þátt í Gautaborgsleikunum síðustu helgina í júní og fyrstu vikuna í júlí í Gautaborg í Svíþjóð. Árangurinn var góður að sögn Páls Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra sambandsins og lék veðrið við hópinn allan tímann. „Það var geggjað veður og aðstæður eins og best verður á kosið fyrir krakkana og þau að stóðu sig vel virkilega vel. Þau kepptu í sínum sterkustu greinum, voru að taka þátt í tveimur og upp í fimm greinum á dag. Það var yfirleitt alltaf einhver keppnisgrein á hverjum degi og svo var gert ýmislegt skemmtilegt eins og farið í tívólí og fleira.“ segir Páll.
Páll segir að það sé ýmislegt á dagskrá hjá sambandinu á næstu vikum. „Næst á dagskrá er unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn. Við erum að fara þangað með hóp af krökkum og munum keppa í frjálsum íþróttum, fótbolta, körfubolta og sundi. Það er allavega það sem ég veit um núna, gæti bæst við eitthvað af keppnisflokkum en við höfum verið með áður keppendur í hestaíþróttum og skotíþróttum en það verður ekki núna reyndar.“ segir Páll.
Hann bætir við að dagskráin haldi svo áfram, farið verður á Króksmót í fótbolta á Sauðarkróki í vikunni eftir verslunarmannahelgina. Svo verði tekið þátt í bronsmóti Völu Flosadóttir í frjálsum íþróttum helgina þar á eftir og í lok ágúst verður svo Fosshótel mót í fótbolta á Patreksfirði þannig að það er óhætt að segja að það sé nóg að gera hjá íþróttaiðkendum á svæðinu.
Aron Ingi
aron@bb.is