Lenti í öðru sæti í frumraun sinni

Brynjólfur segir að árangur sinn á mótinu hafi verið algjört ævintýri. Mynd: Brynjólfur Rúnarsson

Ísfirðingurinn Brynjólfur Örn Rúnarsson lenti í öðru sæti í Jujitsu á móti sem ber nafnið Hvítur á leik um miðjan júlí síðastliðinn. Árangur Brynjólfs er athyglisverður í ljósi þess að hann hefur ekki æft né keppt í Jujitsu áður og ákvað á miðvikudeginum fyrir mótið að taka þátt. „Ég hef aldrei prufað þetta áður, þannig að þetta er alveg nýtt fyrir mér. Ég náði öðru sæti af fimm keppendum. Þetta var bara ævintýri, ég hef bara verið í glímunni, er að prufa að færa mig meira yfir í þetta og svo kannski MMA í framtíðinni. Ég stefni á að fara einu sinni í mánuði að æfa fyrir sunnan og stefni á æfingabardaga næsta vetur.“ segir Brynjólfur.

Brynjólfur segir að árangurinn á þessu móti hafi í raun og veru verið úrslitaatkvæði um hvort hann myndi gera meira úr þessu. „Ég hefði verið sáttur við að fá stig á mótinu. Ég kunni ekki einu sinni að binda hnútinn á beltinu, bað um hjálp við það og sá sem aðstoðaði mig hélt að ég væri að grínast. Ég veit ekki hvort ég er svona hugaður eða hvort þetta var bara vitleysa, en þetta var gaman. Ég hef ekki gert neitt í allavega 10 ár varðandi glímuna, þetta er bara greinilega eitthvað sem maður hefur í sér.“ segir Brynjólfur.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA