Keppir í fyrsta skipti í CrossFit

Anna Þuríður Sigurðardóttir á eflaust eftir að gera góða hluti í CrossFit í framtíðinni.

Anna Þuríður Sigurðardóttir úr Bolungarvík og nemi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, er stödd á Landsmóti UMFÍ á Sauðárkróki til að keppa í CrossFit. Þetta er í fyrsta skiptið sem Anna Þuríður keppir en hún byrjaði ekki að æfa greinina fyrr en núna í febrúar. BB sló á þráðinn til að vita hvernig gengi. „Ég er búin með fyrstu tvær greinarnar og gengur ágætlega miðað við að þetta er fyrsta mót. En ég er líka bara rétt að byrja,“ segir hún kankvís og hnyklar vöðvana. Keppendur í CrossFit fara í gegnum æfingar sem ekki er fyrir venjulegt fólk að nefna, hvað þá gera. Til dæmis eitthvað sem kallast chipper og felst í því að koma 35 eða 50 kílóum frá öxl og upp, gera 50 magaæfingar, 50 DB FR/OH framstig með 22,5 eða 15 kíló og þrjár dauðalyftur svo fátt eitt sé nefnt. Það verður spennandi að fylgjast með Önnu Þuríði í framtíðinni, hvort sem hún syngur englasönginn sinn fyrir landsmenn alla eins og hún hefur gert hingað til eða vinnur íþróttaafrek eins og hún á eflaust eftir að gera.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA