Hópur fólks í Vesturbyggð hittist tvisvar í viku og skellir sér í sjóinn við Þúfneyri á Patreksfirði. Sjósundshópurinn byrjaði að fara í sjóinn í apríl síðastliðnum þegar sjórinn var í kringum 1,5 gráðu en hitastig sjávar er þessa dagana í kringum 9,5 gráður. Það er Hafdís Rut Rudólfsdóttir, íbúi á Patreksfirði sem stendur á bakvið þetta framtak. Hafdís Rut sagði blaðamanni BB að það séu alltaf að bætast við ný andlit í hópinn og markmiðið sé að njóta samverunnar og slaka á. „Við förum tvisvar í viku, á þriðjudögum klukkan 19:00 og svo fimmtudögum klukkan 18:00. Þetta hefur gengið mjög vel, það hafa verið frá fjórum upp í sjö manns. Og ekki alltaf sama fólkið en þó ákveðinn kjarni. Það voru margir sem höfðu aldrei farið í sjóinn áður en sumir höfðu prófað þetta þegar þau voru börn og flestir eru farnir að taka sundtök þannig að þetta er allt að koma. Við erum að njóta þess að vera saman og hreyfa okkur, slaka á og synda og sulla, sumir fara bara upp í mitti. Þetta er fyrir alla, þetta er ekki eitthvað hetju dæmi.“ segir Hafdís Rut.
Hafdís Rut segir að hópurinn hittist hjá sundlauginni í Bröttuhlíð á Patreksfirði og sameinist í bíla og svo er ekið niður á Þúfneyri. Hópurinn er í sjónum í um það bil 20 mínútur til hálftíma meðan sjórinn er svona heitur eins og í sumar og svo fara þau í pottana í Bröttuhlíð á eftir án þess að greiða fyrir en í boði Vesturbyggðar. „Fólki líður vel á eftir og er sammála um að þetta er gott fyrir heilsuna. Þetta er talið vera mjög gott fyrir sogæðakerfið, bólgusjúkdóma og gott fyrir húðina því við þessa iðju þá verður inntak af steinefnum, salti og þörungum inn í húðina. Það er mikil vakning núna að stunda það að fara í köld böð og er væntanlega vakning í kjölfar sjósundsins.
Hafdís Rut segir að hópurinn ætli svo að bralla ýmislegt saman á komandi misserum. Planið er að hitta sjósundsfólkið á Tálknafirði og gera eitthvað með þeim. Svo langar þeim að fara og synda á fleiri stöðum en hér á Patró að Hafdísar. „Svo höldum við áfram í vetur, engin spurning! Það er alltaf erfitt að fara ofan í sama hvort sjórinn er 1,5 gráður eða 10 gráður, þetta er bara spurning hvað hægt er að vera lengi ofan í.“ segir Hafdís Rut að lokum.
Aron Ingi
aron@bb.is