Hafist handa við byggingu á reiðhöll

Íslenskir hestar. Mynd: Vilhelm.

Hestamannafélagið Hending á Ísafirði hefur hafið byggingu á reiðhöll. Marinó Hákonarsson, formaður félagsins segir blaðamanni BB að verkferlið sé raun og veru í startholunum og mikil ánægja sé að hafist hafi verið handa loksins. „Við erum rétt að hefja byggingu á þessu, það er búið að taka grunn hjá okkur og við erum að viða að okkur efni. Við fengum nýlega byggingarleyfi þannig að þetta er allt komið á beinu brautina. Þetta er hálfgerð saumaklúbbaaðgerð að vinna svona því það þarf að vinna þetta með okkar mannskap. Við áttum von á yfirbyggingunni í júlí en það er búið að seinka því fram að mánaðarmótum ágúst og september.“ segir Marinó.

Reiðhöllin verður 900 fermetrar og heilmikil bygging að sögn Marinó. Áætlað var að ljúka verkinu 1. desember á síðasta ári en því var seinkað en gert er ráð fyrir að halda sig við þá dagsetningu og ljúka því 1. desember í ár. Marinó segir þetta sé fyrsta sem er gert varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir hestafólk hér á svæðinu í nærri 30 ár. „Ég er sannfærður um að þetta muni gjörbreyta allri starfsemi og breyta okkar helstu áherslum í hestamennsku. Nú er nýliðið landsmót hestamanna og við gátum ekki tekið þátt í því af því það eru engar aðstæður hér til að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að halda forkeppni. Við þurftum því að horfa bara á það í sjónvarpinu í staðinn í þetta skiptið. Þessi bygging mun breyta því að hluta til, en við þurfum auðvitað að fá reiðvellina inn líka.“ segir Marinó að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA