Sjávarútvegsmótaröðin í golfi siglir beggja skauta byr, en keppt var í tveimur mótum um helgina; Íslandssögumótið á laugardag og Klofningsmótið í dag sunnudag.
Íslandssögumótið var leikið á Tungudalsvelli á laugardeginum í meinleysis veðri, súldarfýla um morguninn en var orðið gott um hádegisbilið. Þrjátíu og fjórir keppendur mættu til leiks. Keppt var í höggleik án forgjafar í karla-, kvenna- og unglingaflokki og punktakeppni með forgjöf.
Sigurvegari í höggleik karla var Janusz Pawel Duszak frá Bolungarvík á 76 höggum. Í kvennaflokki sigraði Bjarney Guðmundsdóttir frá Ísafirði á 90 höggum og Jón Gunnar Shiransson sigraði í unglingaflokki. Í punktakeppni með forgjöf sigraði Víðir Gauti Arnarson. Boðið var upp á fiskisúpu eftir níu holur og vegleg verðlaun voru veitt að móti loknu.
Í dag, sunnudag var keppt í Klofningsmótinu, og mættu 40 keppendur til leiks. Dagurinn byrjaði vel en fór að rigna fyrir hádegið og keppendur orðnir nokkuð veðraðir að móti loknu. Það er erfiðara að spila golf í rigningu og bleytan hefur alltaf áhrif á árangur og slævir einbeitningu í þessum erfiða leik.
Í höggleik karla voru þrír keppendur jafnir með 80 högg, Anton Helgi Guðjónsson, Runólfur Kristinn Pétursson og Baldur Ingi Jónasson. Þurftu þeir að heyja bráðabana og var slegið á sjöundu holu, sem er par þrír. Tveir mættu til leiks, Runólfur og Baldur Ingi, og sigraði sá síðarnefndi sem fór holuna á fugli. Í kvennaflokki sigraði Sólveig Pálsdóttir frá Ísafirði og Jón Gunnar Shiransson í unglingaflokki. Í punktakeppni með forgjöf sigarði Neil Shiran K. Þórisson.
Næsta keppni í mótaröðinni verður Jakob Valgeir mótið sem haldið verður í Bolungarvík 28. júlí.