Iða Marsibil er þriggja barna móðir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar og skrifstofustjóri Arnarlax á Bíldudal. Hún er fædd á Patreksfirði 1977 en bjó alla sína æsku á Bíldudal. Hún fór suður til að fara í Verslunarskóla Íslands en eftir fyrsta árið færði hún sig í sveitina á Laugarvatni og varð þaðan stúdent. Hún segist alltaf hafa verið dálítil sveitastelpa og átti lífið þar betur við hana á þessum tíma ævinnar. Að lokum útskrifaðist hún svo sem viðskiptafræðingur frá Bifröst. Hún er Vestfirðingur í húð og hár, en foreldrar hennar og föðurfólk eru Bílddælingar. Föðuramman er ættuð frá Þingeyri, móðuramma hennar ólst upp í Reykjafirði í Arnarfirði og móðurafi í Langabotni í Arnarfirði. Hún hafði búið í Reykjavík í mörg ár þegar henni bauðst tækifæri til að flytja heim til Bíldudals árið 2014 og vinna á skrifstofu Arnarlax. Fyrr á þessu ári vann hún svo sveitarstjórnarkosningarnar í Vesturbyggð sem oddviti N-listans.
Virk á öllum sviðum samfélagsins
,,Æskan heima einkennist í minningunni af öflugu félagslífi, sérstaklega í kringum íþróttastarfið og tók ég ávallt virkan þátt í því. Fyrstu skrefin á vinnumarkaðinum steig ég í frystihúsinu á staðnum í kringum fermingaraldurinn, undir styrkri leiðsögn móðurömmu minnar. Eftir að ég kom svo heim 2014 hef ég unnið sem skrifstofustjóri hjá Arnarlax hf. Í raun má segja að sú vinna hafi átt hug minn allan til dagsins í dag en meðfram hef ég tekið þátt í uppbyggingarverkefnum í kringum íþróttahreyfinguna og hef síðustu tvö árin verið formaður Héraðssambandsins Hrafnaflóka.’’
Þegar Arnarlax hafði samband við Iðu árið 2013 var mikil ládeyða yfir Bíldudal og sveitarfélaginu fyrir vestan. Blikur á lofti í atvinnulífinu og þar af leiðandi uppbyggingu samfélagsins fyrir utan Kalkþörungaverksmiðjuna og kannski mögulega laxinn, en síðan þá hefur samfélagið tekið kipp og vaxið hratt.
,,Í dag erum við orðin yfir 100 manns sem erum á launaskrá hjá Arnarlaxi og eru þá ótaldir 8 starfsmenn sem eru hjá Bæjarvík í Tálknafirði sem er hluti af Arnarlax samsteypunni. Maður áttar sig kannski ekki á því endilega á leiðinni en þetta hlýtur að teljast ofboðslega mikill vöxtur á mjög stuttum tíma. Einn daginn leyfir fólk sér kannski að staldra aðeins við og líta til baka og hugsa með sér að þetta sé nú bara nokkuð vel gert. Í það minnsta mikil breyting frá því sem var og tekur yfir stuttan tíma. En svona hröðum vexti fylgja vaxtarverkir og þeir eru mesta áskorunin, að gefast ekki upp þó upp komi hnökrar, anda í kviðinn og stappa í fólk stálinu, mann sjálfan og aðra sem vinna að verkefninu líka. Þegar svona gerist þá þurfa allir að reyna eftir fremsta megni að ganga í takt í átt að sömu markmiðum, þá á ég við fyrirtækið og bæjarfélagið. Mér finnst skemmtilegast að taka sem dæmi um vöxtinn í samfélaginu þá staðreynd að fjöldi barna við Grunnskólann á Bíldudal hefur tvöfaldast á þessum stutta tíma.’’ Hún segir að það hafi verið óskaplega gott að koma heim og fá tækifæri til að taka þátt í að hleypa lífi aftur í sinn heimabæ.
Kom, sá og sigraði í sveitastjórnarkosningum
Iða bauð sig fram sem oddviti fyrir framboð N-lista, Nýrrar sýnar og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks og óháðra í Vesturbyggð. Hún segir að það hafi verið mjög lærdómsríkt á margan hátt að taka þátt í kosningunum og það að vinna hafi verið góð tilfinning. ,,En ég er fyrst og fremst þakklát fyrir það traust sem fólkið í sveitarfélaginu sýndi okkur sem buðum fram. Reynsla mín af pólitík sem slíkri er ekki til staðar, en ég hef alltaf verið mjög fylgin sjálfri mér ef svo má að orði komast og fannst ég hafa eitthvað til málanna að leggja við að stýra sveitarfélaginu. Ég vil nálgast verkefnið af auðmýkt, samviskusemi og samvinnu enda erum við öll sem sitjum í bæjarstjórn að gera okkar besta fyrir samfélagið.’’
Segir að tækifærin séu út á landi
Iða heldur því fram að það sé engin spurning að það séu tækifæri úti á landi. ,,Ef í boði eru störf við hæfi menntunar, þá er í flestum tilfellum ekkert því til fyrirstöðu hjá ungu fólki að flytja aftur heim. Grunnstoðir samfélagsins þurfa jú að vera í lagi, góður skóli, aðstaða til íþróttaiðkunar og annarra félagsstarfa þarf að vera til staðar.’’ Hún vill einnig hvetja fólk til þess að skoða möguleikann á því að flytja til Vesturbyggðar. ,,Ég veit um töluvert af fólki sem hefur áhuga á að flytja út á land og breyta til. Vesturbyggð hefur upp á svo margt að bjóða og er í alvöru frábær kostur fyrir fjölskyldufólk á öllum aldri.’’
Ísabella
isabellaosk22@gmail.com