Nú stendur yfir kynningartími frummatsskýrslu vegna fyrirhugaðra ofanflóðavarnargarða á Patreksfirði, fyrir ofan Urðargötu, Hóla og Mýrar. Opið hús var haldið í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar þriðjudaginn 10. júlí síðastliðinn til að kynna mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugara aðgerða, ofan við Urðargötu, Hóla og Mýrar. Kynntar voru niðurstöður frummatsskýrslu og er hægt að nálgast skýrsluna á heimasíðu Vesturbyggðar.
Stutt erindi var haldið á opna húsinu um framkvæmdina auk þess sem sýnd voru veggspjöld með helstu niðurstöðum. Fulltrúar frá Framkvæmdasýslu ríkisins og Vesturbyggð ásamt sérfræðingum frá VSÓ Ráðgjöf voru á staðnum til að svara fyrirspurnum. Í frummatsskýrslunni er gerð grein fyrir framkvæmdinni, helstu áhrifaþáttum hennar og líklegum áhrifum á umhverfisþætti. Umhverfisþættir sem eru teknir fyrir í mati á umhverfisáhrifum eru vistgerðir, gróður og fuglalíf, vatnafar, jarðminjar, hljóðvist, fornleifar, loftgæði, snjósöfnun, loftslag, landslag og ásýnd og útivist.
Fólk er hvatt til að kynna sér efni frummatsskýrslunnar og skal senda skriflegar athugasemdir eða ábendingar til Skipulagsstofnunar, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík eða á netfangið skipulag@skipulag.is. Frestur til að senda inn ábendingar er til 7. ágúst 2018.
Aron Ingi
aron@bb.is