Meirihluti bæjarráðs lagði til á bæjarráðs fundi að morgni þriðjudagsins 24. júlí að Rebekka Hilmarsdóttir verði ráðinn bæjarstjóri Vesturbyggðar kjörtímabilið 2018 – 2022. Formanni bæjarráðs og forseta var falið að ganga frá ráðningarsamningi við Rebekku. Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum. Rebekka var valin úr hópi níu umsækjenda.
Rebekka er 34 ára gömul, er lögfræðingur að mennt og starfar hún sem lögfræðingur og er staðgengill skrifstofustjóra hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Einnig hefur hún starfað sem lögfræðingur hjá Umboðsmanni skuldara ásamt því að starfa við þýðingar hjá utanríkisráðuneytinu. Hún er fædd og uppalin í Kollsvík í Rauðsandshreppi. Árið 2015 keypti hún, ásamt eiginmanni sínum, Gamla spítalann á Patreksfirði sem byggður var árið 1901 og hafa þau unnið hörðum höndum við að gera hann upp síðan.
Rebekka hyggst flytja á Patreksfjörð ásamt eiginmanni sínum Erni Hermanni Jónssyni og syni þeirra. Gert er ráð fyrir að Rebekka taki við embætti bæjarstjóra Vesturbyggðar þann 1.október næstkomandi.
Aron Ingi
aron@bb.is