Leiklistarnámskeiðið Leik-list? verður haldið á sunnanverðum Vestfjörðum dagana 2. til 13. júlí næstkomandi. Námskeiðið er hugsað fyrir börn á aldrinum 10 til 16 ára og eru það eru þeir Gunnar Smári Jóhannesson og Jónas Alfreð Birkisson, leiklistarnemar í Listaháskóla Íslands, sem standa fyrir námskeiðinu. Þeir félagar kynntust við nám sitt og eru báðir Vestfirðingar, Gunnar er frá Tálknafirði og Jónas frá Önundarfirði.
Gunnar Smári segir í samtali við blaðamann BB að honum hafi fundist vanta möguleikann að stunda leiklist fyrir vestan þegar hann ólst upp. Þeir hafi því ákveðið að deila sinni vitneskju með krökkum á svæðinu. „Þegar ég var yngri hafði ég mikinn áhuga á leiklist. Það var og er mjög öflugt íþróttastarf á Vestfjörðum, sérstaklega í Tálknafirði. Það var mikið sund, fótbolti og frjálsar íþróttir en það var aldrei mikið um leiklist. Nema stundum að vetri til, í tengslum við þorrablót og árshátíðir, þá var eitthvað sett á svið.“
Námskeiðið er ætlað öllum börnum á sunnanverðum Vestfjörðum. Gunnar segir að námskeiðið henti best fyrir börn á aldrinum 10 til 16 ára, en ef foreldrar meti það svo að yngri börn, til dæmis 8 eða 9 ára vilji taka þátt þá sé að bara frábært.
Námskeiðið er byggt upp á spuna að sögn Gunnars. „Spuni leysir úr læðingi allar þær skemmtilegu hugmyndir sem búa innra með okkur. Við viljum leyfa börnunum að kynnast sínum innri listamanni því öll erum við jú listamenn, sama hvort við tálgum spýtukalla í frítíma okkar, erum að syngja eða leika. Við viljum leyfa þeim að vera frjálsir listamenn í þessar tvær vikur sem þau eru hér með okkur.“
Í lok námskeiðsins er ætlunin að taka upp litla mynd og gefa út á dvd diskum sem börnin geta tekið heim með sér. Gunnar er mjög þakklátur fyrir þann stuðning sem þeir félagar hafa fengið varðandi námskeiðið. Við erum gífurlega þakklátir Uppbyggingarsjóði sem styrkir þetta, svo hefur Vesturbyggð lofað að keyra þátttakendur á milli staða með rútu. Eina vikuna verður þetta haldið á Patreksfirði og hina vikuna á Bíldudal og svo verður lokahóf haldið á Hópinu á Tálknafirði þar sem verður pizzuveisla og foreldrum verður boðið. Þá munum við horfa á þættina sem við tókum upp og tala um námskeiðið þannig að þetta verður svona ákveðin uppskeruhátíð.“
Aðspurður segir Gunnar að nafnið á námskeiðinu sé í raun og veru bara leikur að orðum. „Maður er ekki sama manneskja eftir því í hvaða aðstæðum við erum í. Hvenær er maður karakter og hvenær er maður sjálfur? Það er talað um í leiklist að nota þann karakter sem maður skapar í sínu eigin lífi í því hlutverki sem maður er að skapa í leiklist, nafnið á námskeiðinu er í raun tilvísun í þetta.“ segir Gunnar að lokum.
Aron Ingi
aron@bb.is