Við lifum ekki í ljóðinu einu saman

Að skrifa nafnlaust um hitamál samfélags ber þess ekki merki að menn vilji taka umræðuna fyrir opnum tjöldum og með málefnalegum hætti. Dæmi um slík skrif eru Víkverjans á síðum Morgunblaðsins fyrsta dag þessa mánaðar. Þar er umfjöllunarefnið Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum.

Víkverji telur að mannanna verk á borð við virkjanir og háspennuturna séu listamönnum heimsins lítill innblástur þar sem hvorki undursamleg ljóð né dýrleg listaverk hafi litið dagsins ljós undir áhrifum frá slíkum mannvirkjum. Þetta er án efa rétt hjá Víkverja. En svipaða sögu má segja um flesta þá innviði sem mennirnir byggja upp til að létta sér lífið og tilveruna. Hraðbrautir og hringtorg, stórskipahafnir og sjúkrahús, flugbrautir og flóðavarnir – allt eru þetta nauðsynlegir innviðir en trúlega lítil uppspretta andans öðrum en arkitektum sem gera sitt ítrasta til að mannvirkin falli vel að umhverfi sínu. Hástemmd ljóð um slík mannvirki eru sennilega vandfundin.

Reyndar urðu raforkumál góðu skáldi hér fyrir vestan oft að yrkisefni. Guðmundur Ingi Kristjánsson frá Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði sat marga fundi Orkubús Vestfjarða og lét sig raforkumál fjórðungsins miklu varða. Hann orti:

Aldrei var svo vitlaus gerð

virkjun hér á landi,

að hún borgi ei sitt verð

og til heilla standi.

Og góðum skáldum verður fleira að yrkisefni en náttúran ein. Upp í hugann kemur fallegur texti um algenga stjóriðjuafurð – bárujárnið góða. Það veitti nú einhverjum innblástur einhvern tímann.

Sá sem orti um bárujárnið greiddi trúlega götu fleiri stóriðjuvera og fleiri orkumannvirkja hér á landi en nokkur annar núlifandi Íslendingur – allt í nafni framfara á Íslandi. Hann sagði einnig á forsíðu Tímans, í kjölfar mikilla hamfara hér fyrir vestan í janúar 1995, að Vestfirðir væru eitt mikilvægasta svæði landsins hvað tekjuöflun þjóðarinnar varðaði. Það ætti að styrkja stöðu byggðanna þar til þess að fólk gæti komið sér fyrir á þeim svæðum sem öruggust væru.

Nú hyllir undir að langþráðar framfarir í raforkumálum og atvinnuuppbyggingu líti dagsins ljós á Vestfjörðum. Um það eru þeir sérfræðingar samdóma, sem hafa sett sig gaumgæfilega inn í það hvaða þýðingu Hvalárvirkjun, og nauðsynleg orkuflutningsmannvirki henni tengdri, munu hafa fyrir orkuöryggi og möguleika til atvinnusköpunar í fjórðungnum.

Er til of mikils mælst að þeir sem búa við alsnægtir höfuðborgarsvæðisins, með örugga orku á lágmarksverði, fjölbreytta atvinnumöguleika og alla nauðsynlega innviði á sínum stað, standi með okkur Vestfirðingum í þeirri viðleitni að gera fjórðunginn okkar að sambærilegum búsetukosti og önnur svæði Íslands?

 

Birna Lárusdóttir

upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði

greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júní s.l.

DEILA