Vegið að sjálfstjórn sveitarfélaga

Teitur Björn Einarsson.

Í aðdraganda nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga beindist kastljósið eðlilega að hlutverki sveitarfélaga og fyrirætlunum frambjóðenda til að koma til móts við óskir og þarfir íbúa. Minna fór fyrir umfjöllun um mikilvægi lýðræðiskjörinna fulltrúa sveitarfélaga í stjórnkerfi hins opinbera og sjálfstjórnar sveitarfélaga til að ráða sjálf eigin málum á eigin ábyrgð. Sennilega er það vegna þess að gengið er út frá þeim þýðingarmiklu atriðum sem sjálfsögðum. En ef nánar er að gáð eru þau atriði ekki eins sjálfsögð og virðist í fyrstu eins og nýlegt dæmi sýnir vel fram á.

Skipulagsstofnun og Árneshreppur

Í lok apríl sl. birtist frétt í Morgunblaðinu þess efnis að Skipulagsstofnun hefði frestað afgreiðslu á því að staðfesta breytingu á aðalskipulagi Árneshrepps, sem sveitarfélagið hafði samþykkt í janúar og sendi Skipulagsstofnun erindi þess efnis í marsmánuði eins og skipulagslög kveða á um. Stofnunin krafði sveitarfélagið enn fremur um svör um atriði sem lúta að formi og afgreiðslu sveitarfélagsins á aðalskipulagsbreytingunni og um hæfi fulltrúa í sveitarstjórn.

Ekki hefur þessi þáttur málsins hlotið mikla athygli á opinberum vettvangi, a.m.k. enn sem komið er. Er það með nokkrum ólíkindum í ljósi þess hversu mjög ríkisstofnunin hefur vegið að sjálfstjórn sveitarfélagsins og farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt með stjórnsýsluháttarlagi sínu. Skipulagsstofnun hefur ekkert boðvald yfir sveitarstjórnum og hefur ekki heimild í skipulagslögum til að hefja sjálfstæða athugun á störfum þeirra og enn síður að kröfu þrýstihópa.

Sjálfstjórn sveitarfélaga

Sveitarstjórnir ráða sínum málum sjálf á eigin ábyrgð. Þetta er nokkuð skýr regla í stjórnarskránni og sveitarstjórnarlögum og grundvallast á því að sveitarfélög eru sjálfstæð stjórnvöld sem stjórnað er af lýðræðislega kjörnum fulltrúum íbúa sveitarfélagsins og þýðir að hvers konar afskipti annarra stjórnvalda af málefnum sveitarfélaga verða að taka mið af sjálfstjórn sveitarfélaga.

Sveitarstjórn ákvarðar sjálf um lögmæti funda, hæfi fulltrúa til þátttöku og afgreiðslu mála og á sveitarstjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum mála. Almennt stjórnsýslueftirlit er svo í höndum ráðherra sveitarstjórnarmála.

Tímafrestur virtur að vettugi

Skipulagsstofnun hefur sannanlega það lögbundna hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd skipulagslaga. Það sem Skipulagsstofnun ber að gera á því stjórnsýslustigi sem hér um ræðir er að staðfesta að tillaga að aðalskipulagi sveitarfélags hafi verið unnin í samræmi við skipulagslög. Ella vísa málinu til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá því erindið barst frá sveitarfélagi. Svo virðist sem stofnunin hafi nú þegar brotið lög með því að virða ekki lögbundinn fjögurra vikna tímafrest til að annað hvort staðfest aðalskipulagstillögu Árneshrepps eða synja henni staðfestingar og vísa til ráðherra.

Ef málinu verður engu að síður vísað til ráðherra getur ákvörðun hans, á því hvort einhverjir efnis- eða formgallar kunni að vera á afgreiðslu sveitarstjórnar eða gerð skipulags, eingöngu verið grundvölluð á því hvort tillagan eða afgreiðslan sé í andstöðu eða í samræmi við ákvæði skipulagslaga, ekki sveitarstjórnarlaga eða annara laga. Þetta er grundvallaratriði.

Valdþurrð og óljós vegferð

Samkvæmt fyrrgreindum fréttum af málinu krafði Skipulagsstofnun Árneshrepp um svör og skýringar á nokkrum atriðum sem eru öll runnin undan rifjum hagsmunaaðila sem una ekki niðurstöðu meirihluta sveitarstjórnar. Stofnunin spyr þannig um fundarboð sveitarfélagsins, hæfi tiltekinna sveitarstjórnarfulltrúa og afgreiðslu mála hjá sveitarfélaginu sem varða ekki skipulagslög. Ekki er stafur um þessi formsatriði í skipulagslögum og stofnuninni er ekki heimilt að hafa afskipti af eigin málum sveitarfélagsins með þessu hætti. Um hæfi fulltrúa gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga og það er sveitarstjórn, ekki Skipulagsstofnun, sem tekur ákvörðun um hæfi þeirra. Augljósari verður valdþurrð Skipulagsstofnunar ekki.

Stofnunin spyr enn fremur um aðkomu skipulagsfulltrúa við meðferð málsins. Skipulagsfulltrúi er starfsmaður sveitarfélags og ráðinn af sveitarstjórn til að sinnir skipulagsverkefnum samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar. Það er sveitarstjórn sem ber ábyrgð á gerð aðalskipulags en ekki skipulagsfulltrúi.

Að lokum leitar stofnunin eftir skýringum á því hvort að framkvæmdaaðila hafi verið heimilað að vinna tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Breyting á aðalskipulagi Árneshrepps er tilkomin vegna þess að þörf var á nýju deiliskipulagi vegna fyrirhugaðra framkvæmda og var tekin ákvörðun um sameiginlega skipulags- og matslýsingu í upphafi fyrir bæði verkefnin. Á heimasíðu Skipulagsstofnunar segir um skipulagsmál að landeigendur og framkvæmdaaðilar geti unnið tillögur að deiliskipulagi að fenginni heimild sveitarstjórnar. Það liggur fyrir að það var gert og aðalskipulaginu breytt samhliða gerð nýs deiliskipulags samkvæmt sameiginlegri skipulags- og matslýsingu. Óljóst er á hvaða vegferð Skipulagsstofnun er með því að gera athugasemdir við þetta viðtekna verklag samkvæmt skipulagslögum.

Hvað gengur Skipulagsstofnun til?

Háttarlag Skipulagsstofnunar er illskiljanlegt og erfitt að sjá að það sé í samræmi við ákvæði skipulagslaga eða sveitarstjórnarlaga eða að málsmeðferð stofnunarinnar í þessu máli Árneshrepps sé í samræmi við önnur sambærileg mál sem stofnunin hefur afgreitt án athugasemda.

Hlýtur þetta að vera þeim sem eru nýkomnir til starfa á sveitarstjórnarstigi og allra áhugamanna um lögmæta og vandaða stjórnsýslu töluvert umhugsunarefni og tilefni til að óska þess að bærir aðilar færu betur ofan í saumana á þessari sérkennilegu stjórnsýsluframkvæmd Skipulagsstofnunar.

 

Teitur Björn Einarsson,

lögfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

DEILA