Vantar aðeins 52 þúsund krónur í söfnunina!

Söfnunarsjóðurinn Stöndum saman Vestfirðir safnar nú fyrir tveimur hjartastuðtækjum til að setja í Björgunarskipið Vörð á Patreksfirði og Björgunarskipið Gunnar Friðriksson á Ísafirði. Söfnunin er vel á veg komin, en betur má ef duga skal. BB hafði samband við Steinunni G. Einarsdóttur, eina af forsvarskonum Stöndum saman. „Við fengum ábendingu um að það vantaði tæki af þessu tagi en í fyrra söfnuðum við fyrir eins tækjum í lögreglubílana á Patreksfirði, Ísafirði og Hólmavík. Við viljum að allir viðbragsaðilar á svæðinu séu búnir eins góðum búnaði og mögulegt er,“ segir Steinunn.

„Tækið í Björgunarskipinu Gunnari Friðrikssyni er mjög gamalt og það hefur staðið til að endurnýja það en það er ekkert tæki í Verði á Patreksfirði. Þetta er eitthvað sem við viljum bæta úr, því slysin geta gerst á sjó alveg eins og í landi,“ segir Steinunn.

Það vantar aðeins 52 þúsund krónur upp á að mögulegt sé að kaupa þessi tvö hjartastuðtæki og áhugasamir geta lagt inn á bankareikninginn: 0156-26-216, kennitala 410216-0190

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA