Útskriftarferð og sumarhátíð í leikskólum Vesturbyggðar

Boðið var upp á grillaðar pulsur og safa í blíðskaparveðri á sumarhátíðinni. Mynd: Iwona Kazimierczyk

Elstu börnin á leikskólanum Arakletti á Patreksfirði og elstu leikskólabörnin í Bíld-udalsskóla fóru á dögunum í útskriftarferð. Rúta sótti börnin ásamt kennurum og var ferðinni heitið í fjörur Arnarfjarðar þar sem farið var í lautarferð og leitað var að skrímslum, en svæðið er vel þekkt skrímslasvæði. Afar gott veður var þennan dag og heppnaðist ferðin vel í alla staði. Börnin gleymdu sér í skrímslaleit en þrátt fyrir að engin skrímsli hafi fundist þá fundust fjölmargar vísbendingar um skrímsli. Ekki þótti þeim ólíklegt að Fjörulalli hafi verið á ferðinni á þessum slóðum rétt á undan þeim.

Daginn eftir var svo haldin sumarhátíð á leikskólanum Arakletti. Öll börn leikskólans tóku þátt ásamt kennurum og aftur var blíðskaparveður þann daginn. Boðið var upp á grillaðar pulsur og safa, auk þess sem leikskólalóðin var skreytt og þau börn sem vildu fengu andlitsmálun. Það var sungið og farið í leiki og sumrinu fagnað með til-heyrandi hætti. Við leyfum myndunum að tala sínu máli.

Farið var í lautarferð í útskriftarferðinni. Mynd: Iwona Kazimierczyk
Skrímsla var leitað í fjöruferðinni í Arnarfirði. Mynd: Iwona Kazimierczyk
Krakkarnir skemmtu sér konunglega. Mynd: Iwona Kazimierczyk

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA