Skipulagsstofnun hefur staðfest breytingu á aðalskipulagi Árneshrepps fyrir árin 2005-2025 sem samþykkt var í sveitarstjórn 30. janúar síðastliðinn og birt á heimasíðu sinni. Viðfangsefni aðalskipulagsbreytingarinnar er útfærsla undirbúningsframkvæmda vegna Hvalárvirkjunnar. Virkjunin er áformuð samkvæmt gildandi aðalskipulagi og breytingin miðar að því að unnt sé að framkvæma nauðsynlegar rannsóknir vegna hönnunar virkjunarinnar. Breytingarnar felast í þessum þáttum:
• Að iðnaðarsvæði I3 sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi er ætlað fyrir stöðvarhús og aðstöðuhús virkjunnar færist sunnar og þar er gert ráð fyrir tímabundnum starfsmannabúðum fyrir allt að 30 manns.
• Íbúðarsvæði ÍS1 við Hvalá er fellt niður
• Bætt er við þremur efnistökusvæðum, við Hvalárósa, í Hvalár og við Hvalárvatn.
• Útfærðir eru vinnuvegir frá Ófeigsfjarðarvegi sunnan Hvalár að Neðra Hvalárvatni og þaðan að Neðra Eyvindarfjarðarvatni annars vegar og að Rjúkanda hins vegar, samtals 25 kílómetrar. Um 600 metra ofan við Hvalárfoss er gert ráð fyrir brú yfir Hvalá.
Í aðalskipulagsbreytingunni eru sett ákvæði um að halda vegaframkvæmdum í algjöru lágmarki og að vegagerð verði sleppt þar sem það er mögulegt. Sett eru ákvæði um að vinnuvegir skerði ekki vistgerðir eða jarðminjar sem njóta verndar, eða vistgerðir með hátt eða mjög hátt verndargildi. Lagning vinnuvega á svæðum þar sem ekki hafa verið skráðar eða mældar fornminjar verði undir eftirliti fornleifafræðings. Ef fallið verður frá virkjanaáformum skulu vegir og brú fjarlægð og ummerki fjarlægð eins og kostur er. Einnig eru sett ákvæði um vinnulag við efnistöku og að efnistökusvæði við Hvalá verði aðeins nýtt ef ekki fæst nægilegt efni úr efnistökusvæði við Hvalárósa. Að framkvæmdum loknum skulu starfsmannabúðir fjarlægðar og gengið frá svæði I3 þannig að það verði sem líkast því sem fyrir var.
Skipulagsstofnun barst erindi Árneshrepps þann 2. mars og viðbótargögn þann 16. mars þar sem óskað var staðfestingar á breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna undirbúningsframkvæmda Hvalárvirkjunnar. Við yfirferð Skipulagsstofnunnar komu upp álitamál sem stofnunin taldi að sveitarstjórn þyrfti að bregðast við. Því erindi var svarað af hálfu Jón Jónssonar lögmanns, fyrir hönd Árneshrepps, þann 4. júní síðastliðinn. Skipulagsstofnun telur að í því svari hafi í meginatriðum verið upplýst um þau atriði sem spurt var um og annmarkar á málsmeðferð Skipulagsstofnunnar séu það óverulegir að þeir hindri ekki staðfestingu aðalskipulagsbreytingarinnar.
Mati á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunnar lauk með birtingu álits Skipulagsstofnunnar 3. apríl 2017. Skipulagsstofnun minnir á að við afgreiðslu leyfisveitinga til virkjunarinnar eða einstakra þátta hennar skal sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar.
Í aðalskipulagi Árneshrepps er gert ráð fyrir allt að 50 MW Hvalárvirkjun en í aðalskipulagsbreytingunni sem nú er til afgreiðslu er vísað til áforma um að virkjunin verði 55 MW. Skipulagsstofnun minnir á að í gildi er áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða, rammaáætlun, sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013 þar sem Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði er í nýtingarflokki með uppsett afl 35 MW.
Staðfestingu á breytingu á aðalskipulaginu má lesa í heild sinni hér.
Sæbjörg
bb@bb.is