
Það var heilmikið um að vera í Bolungarvík um sjómannadagshelgina sem hófst snemma eins og undanfarin ár, eða á fimmtudeginum. Þá var haldið upp á Þuríðardaginn í félagsheimilinu og einnig gátu sveittir skellt sér í sund. Á föstudeginum var líka hægt að fara í sund og á hinar ýmsu sýningar en seinnipartinn þann dag hittust áhugasamir dorgarar og kepptu um það hver gæti fiskað stærsta fiskinn á bryggjunni. Laugardagurinn var stór og mikill. Þá hittust hinir ýmsu árgangar til að rifja upp gamla tíma í Víkinni, varðskipið Týr var sýnt og fólk fór í hátíðarsiglingu út á Djúp. Þá var keppt í hinum ýmsu greinum svo sem kappróðri og flekahlaupi, sem mörgum finnst ómissandi hluti sjómannadagsins. Leikhópurinn Lotta sýndi verkið um Gosa, Sveppi og Villi skemmtu áhorfendum og um kvöldið var hátíðarkvöldverður í félagsheimilinu og ball með Sálinni hans Jóns míns. Á sjálfan sjómannadaginn, sunnudaginn 3. júní, voru sjómenn heiðraðir með hátíðarguðþjónustu í Hólskirkju og blómsveigar lagðir að minnismerkjum sjómanna. Þá voru söfnin á staðnum opin og Kvennadeild Landsbjargar með kaffisölu.
Síðast en ekki síst þá afhenti heilsubærinn Bolungarvík dvalarheimilinu nýtt hjól, svo nú geta heldri borgarar heldur betur sýnt sig og séð aðra á götum bæjarins.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com




