
Hafi fólk einhverntíman skemmt sér á Flateyri þá var það núna á laugardaginn síðasta þegar Götuveislan var haldin. Bærinn var málaður svo svaðalega rauður að enginn man annað eins og menn þökkuðu einungis guðunnum fyrir að nokkur hluti Önfirðinga var í Rússlandi svo ekki yrðu lætin meiri. Yfir 200 manns lögðu leið sína á Flateyri þennan dag, þar sem áhugasömum var boðið á kajak, sem endaði í sjósundi fyrir suma, þreyttir voru ferjaðir um tún á dráttarvélakerru, svangir kepptu í kókosbolluáti og tískufrík kepptu í furðufatahlaupi. Veitt voru verðlaun fyrir best skreytta húsið eins og gengur og gerist á götuhátíðum en það voru þau Kristín og Ívar sem hlutu fyrsta sætið að þessu sinni, enda lögðu þau mikinn metnað í að mála og klæða bæði börn sín og gesti fyrir hátíðina. Þá voru Sigrún og Önundur í öðru sæti, Joanna og Rafal í þriðja og Egill og Steinunn í fjórða, en Egill sagði að hann hefði aldrei nokkurn tíman verið úti svona lengi á náttsloppnum sínum.
Súzanna sigraði örugglega í yngri flokki í söngvarakeppninni og Ólöf Máney hjá þeim eldri, enda hefur hún glatt Flateyringa með englasöng nánast frá því í móðurkviði. Kári í Valþjófsdal rústaði kókosbolluáti í yngri flokki og Egill Ólafsson hjá eldri, enda undirbjó hann sig vel fyrir keppni og hafði ekki borðað í viku fyrir Götuveisluna. Það skilaði sér duglega því hann stútaði kókosbollunni á 19 sekúndum sléttum sem er nýtt Önundarfjarðarmet. Þeir sem ekki fíla kókosbollur fóru í Furðufatahlaup og þar hljóp Svala Birkisdóttir á 5 mínútum og 16 sekúndum og sigraði þar með yngri flokk á meðan að Lísa Sigurðardóttir var rétt á eftir henni á 5 mínútum og 32 sekúndum sem dugði henni til að vinna eldri flokk.
Það voru þau Gerður Ágústa og Jóhann Ingi á Mosvöllum, Magnús Einar og Katrín á Flateyri, og Bernharður og María í Dal og á Flateyri sem áttu veg og vanda að skipulagningu þessarar metnaðarfullu hátíðar og eiga þau bestu þakkir skilið fyrir það. Bernharður Guðmundsson tók þessar skemmtilegu myndir sem fylgja hér á eftir.
Sæbjörg
bb@bb.is






















