Sæbjörg 50 ára

Hluti björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri.

Sjómannadagurinn er mikill hátíðisdagur í sjávarþorpunum og Flateyri er þar engin undantekning. Á laugardaginn hittust þorpsbúar og áhangendur á bryggjunni til að skemmta sér í hinum ýmsu leikjum. Þar var meðal annars farið í kraftakeppni hjá börnum og fullorðnum þar sem fólk kepptist við að lyfta mismunandi þungum steinum upp á kör. Þyngsti steinninn var 93 kíló en það stoppaði ekki sveitamenn frá Önundarfirði og Sýrlandi í að vippa honum fimlega upp á karið. Börnin slógu svo villikettina úr tunnunni og fóru að sjálfsögðu í flekahlaup. Enginn bauð sig fram í koddaslaginn, sem hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár því menn vilja síður blotna. Um kvöldið var haldið upp á 50 ára afmæli Björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri og þar var margt góðra gesta. Forsetinn fór huldu höfði, en veislustjóri var enginn annar en Jón Svanberg og Hugleikur Dagsson lét nokkra vel valda brandara fjúka yfir lýðinn. Rokkbændur þeyttu svo pilsum og fjörið hélt áfram fram á rauða nótt með hljómsveitinni F1 Rauður.

Á sjálfan sjómannadaginn var svo hin hefðbundna messa og sigling um kvöldið, þar sem sjófarendur dáðust að sólarlaginu í gegnum þokuna. Vel heppnuð helgi að baki á Flateyri og Björgunarsveitin Sæbjörg á þakkir skildar fyrir verk sín.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

Keppt var í hinum ýmsu greinum. Til dæmis var banani settur á milli læranna á fólki sem þurfti síðan að hlaupa
Reipitog er ómissandi þáttur á sjómannadaginn
Sveitamenn víðsvegar að fóru létt með að vippa 93 kg steininum upp
Börn og unglingar tóku líka þátt í kraftakeppninni
Ekkert mál fyrir Jón Pál!
Mikil veisluhöld voru í félagsheimilinu á Flateyri í tilefni 50 ára afmælis björgunarsveitarinnar Sæbjargar
DEILA