Rótarýklúbbur Ísafjarðar heimsótti bjórverksmiðju Dokkunnar við Sundahöfn á Ísafirði í gærkvöldi (fimmtudag). Verksmiðjan er búin fullkomnum búnaði til að framleiða bjór á heimsmælikvarða og búið er að leggja í fyrstu framleiðslu sem verður tilbúin eftir mánaðarmótin.
Nafnið er kunnuglegt fyrir Ísfirðinga sem komnir eru fram yfir miðjan aldur, en nafnið kemur frá bátakví (Dokkunni) sem var mikið mannvirki við Sundin og er að öllu leyti horfið í dag. Svæðið hefur jafnan dregið nafn sitt af þessu mannvirki og alltaf talað um að fara niður í Dokku og pjakkar sem þar bjuggu voru kallaðir Dokkupúkar.
Dokkan var byggð 1857 og var byggð af eigendum hákarlaskipa til að geyma þilskip við öruggar aðstæður. Meðal framkvæmdamanna var Ásgeir Ásgeirsson kaupmaður, sem Ársgeirsverslun dregur nafn sitt af. Dokkan var með byggð með tvöföldum tréveggjum sem fyllt var upp með möl. Móti suðri var op sem hægt var að loka með trjám sem veitti mikið skjól, en sex til sjö skip gátu legið þar samtímis, hlið við hlið. Seinna eignaðist Ásgeirsverslun Dokkuna sem var um 7-800m að stærð.
Bjórverksmiðjan Dokkan er hugsuð til að framleiða öl fyrir heimamarkað og eins verður ferðamönnum boðið að heimsækja brugghúsið, smakka öl og fræðast um ölgerð. Boðið er upp á fimm tegundir af bjór, dökkan, ljósan, pale ale o.s.frv. Stór markhópur eru farþegar skemmtiferðaskipa, sem verða um 100 þúsund í sumar, en brugghúsið liggur einstaklega vel við landgöngu þeirra.
Eigendur Dokkunnar eru Gunnhildur Gestsdóttir og eiginmaður hennar Albert Högnason, ásamt fjölskyldu. Það er skemmtilegt að sjá hvernig hönnun á húsnæðinu hverfist um gömlu skipakvína, ekki bara hvað staðsetningu varðar, heldur má sjá augljósa tilvísun í barborði staðarins. Framkvæmdastjóri Dokkunnar, Hákon Hermannsson, útskýrði framleiðsluferlið fyrir Rótarýfélögum af mikilli þekkingu. Dokkubjór er ísfirsk framleiðsla að öllu leyti og bruggmeistarar heimamenn. Yfirbruggmeistari er Dokkupúkinn Valur Norðdal. Dokkan er skemmtileg viðbót við matvælaframleiðslu Ísafjarðar og gott innlegg í ferðaþjónustu við Djúp.
Það voru kátir og glaðir Rótarýfélagar sem yfirgáfu Dokkuna þetta kvöld, fullir bjartsýni á góðan og farsælan rekstur og ánægðir með þessa viðbót við gleðigjafa bæjarins. Ef til vill verður Dokkubjórinn aðdráttarafl fyrir ferðalanga til að heimsækja Ísafjörð og njóta lystisemda bæjarins.
Gunnar