Ráðgjöf Hafrannsóknastofnuna​r fiskveiðiárið 2018/2019

Í gær, 13. júní, kynnti Hafrannsóknastofnun úttekt á ástandi nytjastofna og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Á grundvelli langtímamarkmiða um sjálfbæra nýtingu er lagt til aflamark fyrir á þriðja tug stofna, sem miðast við varúðarsjónarmið og hámarksnýtingu til lengri tíma litið. Ráðgjöfina má nálgast á vef Hafrannsóknastofnunar undir liðnum Ráðgjöf.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur 3% aukningu á aflamarki þorsks byggt á aflareglu stjórnvalda, úr 257.572 tonnum í 264.437 tonn fyrir fiskveiðiárið 2018/2019. Samkvæmt stofnmatinu í ár er stærð viðmiðunarstofns aðeins stærri en 2017. Búist er við að þorskárgangarnir frá 2014 og 2015 sem koma inn í viðmiðunarstofninn 2018 og 2019 munu stækka hann lítillega frá því sem nú er. Árgangur 2016 er metinn undir meðaltali en fyrsta mat á árganginum 2017 bendir til að hann verði við meðaltal.

Samkvæmt aflareglu stjórnvalda er ráðlagt aflamark ýsu 57.982 tonn fyrir fiskveiðiárið 2018/2019, sem er 40% aukning frá fyrra ári. Þessi aukning byggir á bættri nýliðun ýsu árin 2016 og 2017 miðað við fimm ár þar á undan. Aflaregla ufsa gerir jafnframt ráð fyrir 30% aukningu í aflamarki fyrir næsta fiskveiðiár, úr 60.237 tonnum í 79.092 tonn. Aukninguna má m.a. rekja til hins stóra 2012 árgangs sem og árganganna frá 2013 og 2014.
Árgangar gullkarfa hafa verið með lakasta móti frá 2006 og af þeim sökum hefur hrygningarstofn minnkað lítillega. Samkvæmt aflareglu verður heildaraflamark gullkarfa 2018/2019 því 43.600 tonn sem er 14% lækkun frá fyrra fiskveiðiári. Samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Grænlands mun 90% eða 39.240 tonn koma í hlut Íslendinga. Ráðgjöf fyrir grálúðu er óbreytt frá fyrra ári eða 24.150 tonn. Samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Grænlands munu um 13.500 tonn koma í hlut Íslendinga.

Stofn íslensku sumargotssíldarinnar hefur minnkað ört á undanförnum árum vegna slakrar nýliðunar og frumdýrasýkingar í stofninum. Þannig hefur stofninn minnkað um nær 60% á undanförnum áratug. Ekki er að vænta mikilla breytinga á stofnstærðinni á næstu árum þar sem árgangar sem eru að koma inn í veiðistofninn eru metnir litlir og sýkingarhlutfall mælist hátt. Samkvæmt aflareglu fyrir síld verður aflamark næsta fiskveiðiárs um 35.186 tonn, sem er 9% lækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári.

Ráðgjöf fyrir flatfiskastofna er lítið breytt frá síðasta fiskveiðiári, að undanskildri þykkvalúru þar sem ráðlagt aflamark eykst um 20%, í 1565 tonn. Lækkun aflamarks er lögð til fyrir blálöngu, löngu, keilu, skötusel og gulllaxi. Ráðgjöf fyrir steinbít hækkar úr 8540 tonnum í 9020 tonn.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA