Matvælastofnun hefur heimilað lyfjameðhöndlun gegn laxalús á tveimur sjókvíaeldisstöðvum á Vestfjörðum, annars vegar í Tálknafirði og hins vegar í Arnarfirði. Fisksjúkdómanefnd veitti umsóknum um lyfjanotkunina jákvæða umsögn eftir ítarlega upplýsingaöflun. Matvælastofnun fór í eftirlit í Tálknafirði og við lúsatalningu sáust greinileg merki um að sú lús sem lifað hafði af veturinn var lífvænleg, farin að tímgast og merki voru um nýsmit. Talið var að engar aðrar aðferðir hefðu nægt til að hreinsa fiskinn af lús og ljóst að ef ekki yrði farið í aflúsun á þessu stigi yrði lúsasmit orðið óásættanlegt síðsumars og í haust. Töluverð hætta væri þá á neikvæðum áhrifum á velferð fisksins og að auki verður að taka tillit til smitálags á villtan fisk og eldisfisk í nágrannafjörðum.
Í Arnarfirði er lyfjameðhöndluninni ætlað að vera að hluta til fyrirbyggjandi, en á þeirri stöð sem til stendur að meðhöndla, er lúsasmit nokkuð mikið og mikill fjöldi fiska í stöðinni. Talið er að ef ekki verði aflúsað myndu þær fyrirbyggjandi aðgerðir gegn laxalús sem eru í notkun á eldissvæðinu öllu, þar sem samtals eru þrjár eldisstöðvar, ekki bera tilskyldan árangur. Þær forvarnir sem eru í notkun og verða teknar í notkun á þessu sumri eru svokallaðir lúsadúkar sem settir eru utan um kvíar til að varna því að smitandi lúsalirfur berist á fiskinn í kvíunum. Einnig notkun á svo kölluðum „Midt-norsk“ hring sem er oft notaður með lúsadúkum til að bæta vatnsgæði í kvíum með dúkum og að lokum hrognkelsi sem éta laxalús af fiskinum.
Sá árangur sem náðist með meðhöndlun einnar stöðvar í Arnarfirði í fyrra þykir til marks um að fyrirbyggjandi aðgerðir séu mikilvægastar í baráttunni við laxalús. Þar getur ábyrg lyfjameðhöndlun verið notuð sem hjálpartæki við að koma eldissvæðum niður á núllpunkt. Staðið verður að málum nú með sama hætti og gert var í því tilviki sem hér er nefnt og á það bæði við um hvaða lyf verður notað og um opinbert eftirlit með framkvæmdinni.
Sæbjörg
bb@bb.is