Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Suðureyri 2-3. júní og höfðu íbúar sem og gestir nóg fyrir stafni, enda fjölbreytileg dagskrá í boði. Laugardagurinn hófst með hinu árlega Kvennahlaupi ÍSÍ og var bæði hægt að taka þátt í 2km eða 4km hlaupi. Hlaupið hófst stundvíslega klukkan 11:00 fyrir utan íþróttahúsið. Eftir það var kappróður á Lóninu og einnig var kynnt þar ný grein sem kallast stórpokahlaup en hlaup af slíku tagi eru ættuð frá austur Póllandi.
Sunnudagurinn var ansi viðburðarríkur og mikil dagskrá við höfnina. Þar var keppt í mörgum ómissandi keppnisgreinum sem einkenna sjómannadaginn, svo sem karahlaupi, kararóðri og fleiru og fleiru. Lokahnykkur dagskráarinnar var svo sigling um Súgandafjörð í boði smábátaeigenda.
Ingimar Aron