Það er mikið og flott starf sem fer fram í Menntaskólanum á Ísafirði. Síðastliðinn vetur voru þar um 400 nemendur samtals í dagskóla og fjarnámi og nú þegar hafa skólastjórendur innritað 155 nema. Þar af eru 64 nýnemar sem er töluverð fjölgun frá því í fyrra þegar þeir voru 48. Enn er þó hægt að sækja um nám á heimasíðu skólans og skráningu í fjarnám lýkur 15. ágúst og reynsla skólastjórnenda sýnir að yfirleitt koma flestar umsóknir í þeim mánuði.
BB hafði samband við Heiðrúnu Tryggvadóttur aðstoðarskólastjóra og spurði hana spjörunum út um skólastarfið, til dæmis á hvaða brautir þessir nýju nemendur eru skráðir og hvernig kynjahlutfallið er á þeim. „Nemendurnir 155 voru innritaðir á 10 brautir. Hátt í 40 nemendanna eru fjarnámsnemendur sem koma héðan og þaðan til að taka einn eða fleiri áfanga við skólann en þess má geta að MÍ er í samstarfi við 12 aðra framhaldsskóla á landsbyggðinni sem kallast Fjarmenntaskólinn. Fjarnámið er stærsti vaxtabroddur skólans og á síðasta skólaári voru um 100 fjarnemar hvora önn við nám í skólann.“
„Vinsælasta brautin í innritun núna er opna stúdentsbrautin okkar. Nýja lista- og nýsköpunarbrautin er líka vinsæl. Kvenkynsnemendur sem byrja nám við skólann í haust eru nokkuð fleiri en karlkynsnemendurnir. Kynjaskiptingin er mjög jöfn á allar bóknámsbrautir en það sama er ekki uppi á teningnum í verknámi. Enginn karlkyns nemandi er við nám í sjúkraliðanáminu okkar, 3 kvenkynsnemendur af 14 nemendur eru í grunnnámi málm- og véltæknigreina og í húsasmíðanáminu eru 3 konur af 11 nemendum. Húsasmíðanámið er sniðið að fólki í vinnu og er nú að fara af stað í annað sinn því fyrsti hópurinn hóf nám í fyrra. Námið var fljótt að fyllast og vonandi verður hægt að bjóða upp á fleiri brautir með svipuðu fyrirkomulagi í framtíðinni,“ segir Heiðrún.
Hún sagði ennfremur að nú stæði til að endurvekja afrekssvið við MÍ í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Súðarvíkurhrepp og íþróttafélögin á svæðinu. „Á afrekssviði er boðið upp á sérsniðið nám sem hentar vel fyrir nemendur sem æfa mikið og vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða námi. Gerðir eru samningar við alla nemendur á afreksíþróttasviði þar sem þeir skuldbinda sig meðal annars með mætingu í skólann sem og að neyta ekki tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna meðan þeir stunda nám á sviðinu. Foreldrar þurfa einnig að skrifa undir samninginn.“
Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu á starfinu hjá þessum góða skóla og hvort svæðið muni ekki ala af sér fjölda afreksíþróttamanna í framtíðinni.
Sæbjörg
bb@bb.is