Í byrjun júní opnaði listasýningin The Factory 2018 í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Er þetta samsýning 16 listamanna og listahópa hvaðan af úr heiminum. Þema sýningarinnar eru persónuleg tengsl listafólksins við Ísland og hvernig þau líta landið. Sýningin verður uppi til loka ágústmánuðar og er hún opin gestum frá klukkan 9:00-18:30 alla daga og aðgangur ókeypis.
Á heimasíðu Hótels Djúpavíkur má finna frekari upplýsingar en þar segir að á sýningunni megi finna fjölbreytt úrval sjónlista sem sameinist í: „Fjölbreyttri og kraftmikilli sýningu sem ætlar er að höfða til sem flestra.“ Á sýningunni má til dæmis finna ljósmyndir, málverk, hljóðverk, blandaða tækni, myndbandalist og innsetningar.
Síldarverksmiðjan í Djúpavík á sér mikla sögu. Árið 1934 var hafist handa við byggingu hennar og rúmu ári síðar var farið að framleiða þar bæði síldarmjöl og lýsi. Verksmiðjan er gríðarstór en hún er 90 metra löng og á þremur hæðum. Vinnslan náði hámarki á svæðinu sumarið 1944 en eftir það minnkaði síldarstofninn hratt og var verksmiðjunni lokað endanlega árið 1954. Á heimasíðu þeirra segir einnig að með sýningunni öðlist gamla síldarverksmiðjan í Djúpavík nýtt og heillandi yfirbragð þar sem hún tengir saman liðna tíma og nútímalist. Markmið sýningarinnar er að efla bæði samfélagið og listafólkið, ásamt því að draga fram Ísland og sýna fram á þá andagift sem list og menning, innblásin af landinu, færir fólki.
Dagrún Ósk