Fram kemur í frétt á vef Mbl.is að kæra hafi borist sýslumanninum á Vestfjörðum vegna gildis kjörskrár í hreppsnefnarkosningum Árneshrepps á Ströndum. Kæran barst sýslumanni fyrir helgi og hefur nú þegar verið skipuð þriggja manna nefnd, sem mun taka afstöðu til kærunnar. Nefndin er skipuð lögfræðingum eins og lög gera ráð fyrir. Þeir sem eru skrifaðir fyrir kærunni eru Elís Svavar Kristinsson og Ólafur Valsson.
Fram kemur að Elís Svavar og Ólafur telji að skilyrði til ógildingar niðurstaða kosninganna séu uppfyllt en í kærunni er málsmeðferð hreppsnefndar, oddvita hreppsnefndar og Þjóðskrár Íslands gagnrýnd harðlega. Í kærunni er því einnig haldið fram að hreppsnefnd hafi brotið gegn ákvæðum laga um að taka til meðferðar athugasemdir frá öðrum en Þjóðskrá, sem og ákvæðum laga um leiðréttingar á kjörskrá.
Árneshreppur hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið vegna lögheimilisflutninga í hreppnum rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar, en 18 manns fluttu lögheimili sitt í hreppinn á tímabilinu 24. apríl til 4. maí 2018. Skemmst er frá því að segja að Þjóðskrá felldi úr gildi 16 af þessum 18 lögheimilisflutningum.
Í kærunni eru ýmis önnur meint brot talin upp, t.d. er varða framlagningu kjörskrár, brot á skyldu til að auglýsa aukafundi hreppsnefndar, brot á skyldu til að auglýsa hvar kjörskrá lægi frammi, brot á skyldu til að leggja hana fram tíu dögum fyrir kjördag og síðustu daga fyrir kjördag og brot á skyldu til að senda tilkynningar til kjörstjórnar. Málsmeðferð Þjóðskrár er einnig harðlega gagnrýnd. Telja kærendurnir að ekki hafi verið rétt staðið að framkvæmd kosninga samkvæmt lögum og svo miklir vankantar á framkvæmdinni að þeir hljóti að hafa áhrif á úrslit kosninganna.
Margrét Lilja