Keyrið varlega!

Lömbin sækja í að kúra í vegköntunum. Það getur orðið þeim að aldurtila.

Nú er sá tími þegar kindurnar fara að leita í sína vanalegu sumarhaga og kenna afkvæmum sínum að rata í þá. Þetta þýðir að þær vilja stundum vera fullnálægt vegunum og það þrátt fyrir að bændur hafi brýnt fyrir þeim allan veturinn að passa sig á bílunum. Það er alltaf leiðinlegt að vera valdur að dauða skepnu og getur verið ákaflega hættulegt fyrir ökumenn að aka á slíka. Ef það gerist, ættu ökumenn alltaf að hringja í Lögregluna og tilkynna atburðinn. Eða, ökumenn geta athugað númerin sem eru í eyrum kindanna, farið á næsta sveitabæ og sagt frá slysinu eða hringt í staðkunnuga sem geta þá líklega leiðbeint þeim áfram. Ef tilkynning berst ekki, fær bóndinn ekki greitt tryggingarfé fyrir skepnuna og hann getur ekki fært afföllin inn í fjárbókhald sitt. Ökumennirnir sjálfir eru ekki bótaskyldir og ættu ekki að þurfa að hræðast að tilkynna slys af þessu tagi.

Nú er sem betur fer liðinn sá tími þegar fólk argast út í kindurnar, heldur gleðjast allir yfir að sjá stöku kind og lítil lömb því það þýðir að enn eru einhverjir bændur eftir í landinu. Sveitarfélögin ættu þó að flýta sér að athuga girðingar í kringum bæjarkjarna, því það er óskemmtilegt að fórna sumarblómunum í fjallalambið.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA