Heyskapur nálgast óðfluga hjá bændum þó fæstir séu samt byrjaðir að slá svona snemma. Árni Brynjólfsson, bóndi á Vöðlum í Önundarfirði ákvað að prófa vélarnar aðeins fyrir helgi og sló svokallaðan Sóleyjarhól á Vöðlum. „Það er komin ágætis spretta og ekki eftir neinu að bíða,“ sagði Árni þegar BB sló á þráðinn til hans. „Það er nú misjafnt hvenær er byrjað. Ég hef einhverntíman verið byrjaður fyrir 17. júní en oft og oftast dregst þetta fram undir mánaðarmót júní/júlí. En þessi bleyta sem verið hefur, hefur virkað og þetta hefur þrælsprottið, þó túnin séu víða mjög blaut.“
Sóleyjarhóllinn á Vöðlum er gamli bæjarhólinn á jörðinni. Þar stóð torfbær hér áður fyrr og þar hóf faðir Árna sinn búskap þegar hann keypti Vaðla á sínum tíma. Árni segir samt að hóllinn beri nú bara nafn sitt vegna blómanna sem þar vaxa.
Þeir sem þekkja Árna vita að hann sést oftast um borð í dráttarvél eða einhversstaðar við vinnu. Nú ber þó til þeirra tíðinda að hann ætlar til Rússlands um helgina. Ekki til að kanna hvernig sprettan er þar heldur til að fara á fótboltaleik með sonum sínum. „Það voru nú bara þrjár ástæður fyrir því að ég byrjaði að slá núna,“ segir hann. „Það var til að kanna hvort tækin væru í lagi, og hreinsa af þessu svo það fari að spretta aftur. Það er svo gott að beita kúnum á hánna þegar þær fara út. Og í þriðja lagi þá geri ég þessa atlögu að dótinu svo það er klárt áður en ég held áfram að slá, því ég er að fara á fótboltaleik til Rússlands,“ sagði Árni og hló dálítið við. „Það truflar dálítið búskapinn en við Óli og Jakob erum að fara á leik Íslands og Nígeríu á föstudaginn,“ sagði bóndinn að lokum, og það verður fróðlegt að vita hvort útvarpið sem ávalt er á hausnum á Árna fari með til Rússlands, eða verði eftir heima.
Sæbjörg
bb@bb.is