Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Gylfa Ólafsson forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Ákvörðun ráðherra er í samræmi við niðurstöðu lögskipaðrar nefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana.
Gylfi er heilsuhagfræðingur. Hann lauk B.Ed. gráðu sem grunnskólakennari frá Háskólanum á Akureyri, M.Sc. í hagfræði frá Stokkhólmsháskóla og hefur lagt stund á doktorsnám í heilsuhagfræði við Karolinska í Stokkhólmi frá árinu 2013.
Samhliða doktorsnámi hefur Gylfi starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í heilsuhagfræði, sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands, auk þess sem hann stofnaði og rak nýsköpunarfyrirtækið Víur í Bolungarvík árin 2013 – 2016. Gylfi var aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra árið 2017.
Í umsögn hæfnisnefndar um Gylfa segir meðal annars að hann hafi nokkuð víðfeðma reynslu úr stjórnkerfinu og þekkingu á heilbrigðismálum í gegnum nám sitt og verkefni. Í umsögninni er einnig vísað til þess að hann hafi mikinn áhuga á að gegna embætti forstjóra við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og hafi kynnt sér vel starfsemi hennar.
Sæbjörg
bb@bb.is