Göngin rétt að verða hálfnuð

Stórstuðlað basaltlag á síðasta stafni viku 24.

Í viku 24 voru grafnir 88,7 m í Dýrafjarðargöngum. Lengd ganganna í lok viku 24 var 2.646,7 m sem er 49,9 % af heildarlengd ganganna. Þá var sama stórstuðlaða basaltlagið á stafni allan tímann. Sprengingar hafa gengið vel og efni var keyrt beint í fláafleyg.

Haldið var áfram með Hrafnseyrarveg, moldarjarðvegur var tekinn undan og lagður á fyrirhugaða fláalínu neðan vegar og fyllt jafnóðum í vegkassa með sprengigrjóti úr göngum. Undir lok vikunnar var undirstöðum bráðabirgðarbrúar og burðarbitum á Hófsá komið fyrir.

Bráðabirgðabrúin yfir Hófsá.

Í Dýrafirði var haldið áfram með borun á presplitt flötum og sprengdar nokkrar færur, þar er jarðfræðin sem fyrr nokkuð fjölbreytt.

Forskeringin í Dýrafirði.

Í síðustu viku var sagt frá því að hitinn í útskoti F hefði mælst 18,7 gráður sem væri 0,4 gráðum minna en í fyrra útskoti. Hitanemum var komið fyrir í bergi á 1 og 5 metra dýpi í öllum útskotum og berghitinn hækkar smá saman eftir því sem lengra er komið inn í göngin. BB lék forvitni á að vita af hverju hitinn hækkaði og Baldvin Jónbjarnarson var svo indæll að segja frá því að í raun væri bergið í Dýrafjarðargöngum fremur kalt vegna þess að algengur hitastigull, eða hitaaukning með dýpi utan jarðhitasvæða á Íslandi væri 50-100°C/km. Í Dýrafjarðargöngunum er verið að grafa um 750 metra frá yfirborði sem gefur hitastig í kringum 37 °C m.v. neðra gildið 50°C/km. Og þess vegna er bergið í þessum göngum því í raun fremur kalt útskýrði Baldvin. Hann benti enn fremur á þetta svar á Vísindavefnum sem fróðlegt er að lesa: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2687

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA