Árið 2012 voru sett lög um veiðigjöld. Reikniregla sem þá var notuð rann út 31 ágúst síðast liðin og hefur verið vinna í gangi um endur útreikning. Þegar lögin tóku gildi 2012 var ljóst að litlum og meðalstórum útgerðum yrði mikill vandi á höndum. Þá var brugðið á það ráð að gefa afslátt á kvótaminnstu útgerðirnar og einnig var veittur svonefndur skuldaafsláttur á lánum sem tekin höfðu verið til kvótakaupa, en sá afsláttur rann út 31 ágúst síðastliðinn. Það má segja að veiðigjöldin hafi verið sett á án þess að huga að hvernig litlum og meðalstórum útgerðum mundi reiða af, síðan var farið í að plástra með þessum afláttum til að koma á móts við þær útgerðir.
Frumvarp um veiðigjöld kom inn til atvinnuveganefndar 30 maí sem var endurreiknað miðað við 2016/2017. Það er skemmst frá því að segja að hörð mótmæli urðu í nefndinni vegna þess meðal annars hvað málið kæmi seint inn í nefndina og eins að ráðherra mælti ekki sjálfur fyrir því inn í þingsal til fyrstu umræðu.
Ég tók þá ákvörðun í nefndinni að vera með á málinu út úr nefnd, einfaldlega til þess að það kæmist til umræðu í þingsal. Þegar þangað kom voru önnur mál sem búið var að semja um fyrir þinghlé um að þingmannamál frá minnihlutanum kæmust á dagskrá, ekki sýnileg. Þá tók ég þá ákvörðun að greiða ekki atkvæði með því að umrætt veiðigjaldafrumvarp kæmist á dagskrá þann dag.
Það er rétt að geta þess að frá því í vetur hef ég innt ráðherra eftir því hvort vinna væri í gangi . Svar kom í mars og þar sagði að unnið væri í málinu.
Forsætisráðherra tók frumvarpið sem kom til atvinnuveganefndar 30 maí um veiðigjöldin af dagskrá og 8 júní mælti formaður atvinnuveganefndar fyrir frumvarpi um framlengingu á gamla frumvarpinu til 31 des 2018, sem annars hefði runnið út 31 ágúst næstkomandi og þá hefðu engin veiðigjöld verið í gangi frá 1 september til áramóta. En með þessari framlengingu mun vandinn sem verið hefur vara 4 mánuði til viðbótar.
Sá sem þetta skrifar mælti fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um þetta frumvarp. Þar var lagt til að skuldaafsláttur sá sem rann út 31 ágúst síðastliðinn yrði tekinn upp aftur til næstu áramóta og afturvirkt frá því hann rann út. Þessi tillaga var feld í atkvæðagreiðslu og því greinilegt að ekki væri vilji til að koma til móts við þær útgerðir sem í mestum vanda eru.
Einn stærsti vandi veiðigjaldanna hefur verið að þau hafa verið reiknuð afturvirkt um þrjú ár og eru aðilar sammála um að þessi útreikningur verði að vera mun nær í tíma. Eins er munur á útgerðum með eða án fiskvinnslu. Engin útgerðamaður sem ég hef talað við er á móti því að greiða veiðigjöld en þau þurfa að vera í samræmi við getu hverrar útgerðar. Reynslan síðan veiðigjöldin 2012 tóku gildi er sú að mikil samþjöppun hefur orðið í greininni og er það varla það sem þjóðin þarf á að halda til dæmis í baráttunni við byggðafestu og eflingu landsbyggðarinnar.
Sigurður Páll Jónsson. Þingmaður Miðflokksins í Norðvestur kjördæmi