Búið að skipa í bæjarráð í Vesturbyggð

Búið er að ganga frá helstu formsatriðum varðandi nýja bæjarstjórn í Vesturbyggð að sögn Iðu Marsibil Jónsdóttur, oddvita N-listans. Fundur var haldinn mánudaginn 11. júní þar sem skipað var í bæjarráð og forseti bæjarstjórnar skipaður.

Iða Marsibil sagði í samtali við BB að bæjarstjórn hafi tekið formlega til starfa. „Við skipuðum forseta bæjarstjórnar og formann bæjarráðs og skipuðum einnig í bæjarráð. Ég er forseti bæjarstjórnar og Þórkatla Soffía Ólafsdóttir er formaður bæjarráðs. Ég mun starfa þar með henni ásamt Ásgeiri Sveinssyni frá D-listanum. Við erum ekki búin að skipa í neinar nefndir, en munum gera það á næsta bæjarstjórnarfundi. Það er ekki búið að boða til hans en hann verður samkvæmt samþykktum bæjarins í kringum 20. júní geri ég ráð fyrir.

Gerður Sveinsdóttir var skipuð sem starfandi bæjarstjóri og mun hún starfa sem slíkur þar til nýr bæjarstjóri verður ráðinn. „Gerður er verkefnisstjóri hjá Vesturbyggð og tók tímabundið við sem bæjarstjóri í gær. Við munum fara í það núna að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra og hafa snör handtök með það. Við þurfum að nota sumarið vel og sjá hvað gerist og svo verður vonandi ráðið í stöðuna fyrir haustið. Enginn hefur sýnt þessu áhuga enn sem komið er en við sjáum hvað setur, nú fer þetta ferli í gang. Við erum virkilega spennt fyrir þeim verkefnum og þeirri vinnu sem er framundan.“ segir Iða að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA