Stjórnvöld hafa ákveðið að laxeldi í sjó skuli byggja á bestu fáanlegu þekkingu og á vísindalegum grunni. Þar eru umhverfissjónarmið í lykilhlutverki og mjög mikilvæg fyrir þessa nýju atvinnugrein. Á þessum grunni voru lög um fiskeldi endurskoðuð á árunum 2014 (nr 49/2014) og ári síðar gerðar talsverðar endurbætur á reglugerð um fiskeldi (nr 1170/2015). En hagsmunaaðilar stangveiðimanna á laxi voru ekki sáttir og með miklum tilfinningahita og pólitískum þrýstingi komu þeir því til leiðar að stofnaður var starfshópur um opinbera stefnumótun fyrir atvinnugreinina. Þar réði miklu að Hafrannsóknastofnun (Hafró) tók undir kröfu stangveiðiréttarhafa og lagði til eigin forsendur og afstöðu til málaflokksins, sem skipti meginmáli fyrir þá stefnu sem starfshópurinn markaði. Hafró lagði til líkan um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar, sem byggir á huglægu mati á mörgum óvissuþáttum og breytum, sem líkanið byggir á. Þetta líkan Hafró hefur ekki fengið neina ritrýnda meðferð eins og önnur reiknilíkön sem stofnunin hefur áður lagt fram, s.s. aflareglu fyrir þorsk sem var rýnd gaumgæfilega af alþjóðlegum stofnunum og sérfræðingum áður en stjórnvöld samþykktu aflaregluna. Engin þjóð hefur tekið upp lögbundið reiknilíkan sem inniheldur breytur um líklega sleppingu eldislaxa, lifun þeirra, farleiðir eða hæfni til hrygningar.
Genamengi eldislaxa er hið sama og villtra laxa, genin eru hvorki fleiri né færri. Breytileiki innan einstakra gena getur hins vegar verið nokkur. Talið er að laxinn hafi um 50 þúsund virk gen og sem geti orðið fyrir úrvalsáhrifum. Andstætt því sem oft er haldið fram eykst breytileiki einstakra gena með aðkomu erfðaefni en breytileikinn minnkar ekki. Líkur á að sérstæður framandi breytileiki innan gena berist milli kynslóða er aðeins 1-3%. Þetta sterka náttúrulega úrval leiðir til þess að erfðabreytileiki innan genamengis laxastofna er mjög stöðugur. Í sérhverjum laxastofni er erfðabreytileiki varðveittur í 4-7 árgöngum og eftir því sem laxastofninn er stærri þeim mun minni líkur eru á að framandi breytileiki innan einstakra gena berist milli kynslóða.
Gjarnan er vísað til Noregs þegar bent er áhættu sem stafi af erfðablöndun. Þar hafa skýr merki um erfðablöndun frá eldislaxi verið staðfest í tugum laxastofna. Erfðablöndunin er mæld í hlutlausum óvirkum gefðavísum. Engar marktækar vísbendingar um að blöndunin hafi dregið úr lífsþrótti laxfiskanna né að þessum tilteknu stofnum hafi hrakað á nokkurn hátt. Þessir laxastofnar eiga það sameiginlegt að vera fremur litlir, laxeldi fer fram skammt frá árósum þar sem laxarnir ganga upp og í ána hafa einnig strokulaxar gengið reglulega upp í tvo til þrjá áratugi. Engu að síður stefnir allt í að erfðaáhrifin muni fjara út vegna 90% fækkunar strokulaxa á síðustu árum í kjölfar hertra krafa um gæði eldisbúnaðar sem innleiddar hafa verið í Noregi.
Dæmi um það hvernig framandi erfðaáhrif fjara út má sjá þegar erfðamengi íslenskra laxastofna er skoðað í samhengi við stórtækar sleppingar á eldisseiðum til fiskiræktar og hafbeitar. Á síðustu öld var sleppt mörgum tugum milljóna eldisseiða í laxár og í frárennsli hafbeitarstöðva yfir 30 ára tímabil. Laxaseiðin voru af svokölluðum Kollafjarðarstofni, sem var eldisfiskur sem aðallega átti uppruna sinn að rekja til Elliðaánna í Reykjavík. Meira en 25 ár eru síðan hætt var að sleppa eldisseiðum af framandi uppruna í laxár og villta náttúru. Í dag sjást þess engin merki að framandi breytileiki erfðavísa hafi náð fótfestu í laxastofnum eða í laxám í næsta nágrenni hafbeitarstöðva. Erfðarannsóknir sýna að íslenskir laxastofnar geta enn þann dag í dag rakið sérkenni sín og sögu til síðustu ísaldar.
Nýlega voru birtar niðurstöður frá öðru reiknilíkani sem sérfræðingar frá öllum heimshornum eru höfundar að. Í meginatriðum sýnir líkanið fram á tvennt: að laxastofnum er engin hætta búin þótt hlutfall eldislaxa í hrygningu verði allt að 10% samfellt í lengri tíma og einnig að laxastofnum er ekki talin hætta búin þótt allt að 30-50% eldislaxa eigi þátt í hrygningu á einstökum árum (Castellani o.fl., 2018).
Hafró hefur sett viðmið um 4% hámark í innblöndun í sínu áhættumati og byggir stofnunin það á ítrasta varfærnissjónarmiði og styðst þar m.a. við náttúrulegt flakk villtra laxa milli árkerfa. Flakk villtra laxa getur þó orðið mun meira enda þótt það hafi fremur lítið verið rannsakað. Norskir sérfræðingar hafa endurskoðað fyrra áhættumat og telja nú að villtum laxastofnum sé lítil hætta búin þótt innblöndun eldislaxa sé allt að 10% (Risikorapport 2018, www.imr.no). Hafró hefur stöðvað mikilvæga atvinnuuppbyggingu í laxeldi með lítt rökstuddum varfærniskröfum sem eiga sér enga vísindalega stoð. Stjórnvöld hyggjast lögfesta tillögu Hafró um áhættumat ef fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á lögum um fiskeldi ná fram að ganga.
Stjórnvöld þurfa að vanda til verka þegar lögfesta á lagaramma fyrir heila atvinnugrein. Nær væri að setja slíka frumraun að áhættumati í reglugerð, sem ráðherra getur endurskoðað með tiltölulega einföldum hætti. Ef vöktun á mögulegri erfðablöndun á komandi árum gefur vísbendingar um að okkar laxastofnum sé hætta búin vegna laxeldis er eðlileg vísindaleg krafa að slíkt reiknilíkan fái ritrýnda og vandaða umfjöllun áður en það verður lögfest.
Jón Örn Pálsson
Ráðgjafi
Tálknafirði