Pétur Ernir Svavarsson býður til tónleika í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar 30. maí næstkomandi kl. 20:00. Tónleikarnir eru seinni hluti framhaldsprófs Péturs í píanóleik. Gestir geta sannarlega átt von á fjölbreyttum og líflegum tónleikum þar sem fram koma margir gestir í skemmtilegri dagskrá. Á efnisskránni eru m.a. verk eftir Liszt, Bach, Beethoven og Rachmaninoff auk einsöngs, kórsöngs, samleiks og samsöngs af ýmsu tagi.
Pétur Ernir fæddist á Ísafirði árið 2000. Hann hóf sex ára gamall píanónám hjá Iwonu Frach en frá þrettán ára aldri hefur hann stundað nám hjá Beötu Joó. Píanóið hefur alltaf verið hans aðalhljóðfæri en hann hefur einnig lært á fiðlu og saxófón. Síðustu árin hefur Pétur numið söng hjá Sigrúnu Pálmadóttur og tók miðpróf í klassískum söng nú í vor en stefnir einnig á að taka grunnpróf í rytmískum söng áður en skólaárinu lýkur. Þá lauk hann einnig á vormánuðum 3. og síðasta stiginu í kórstjórn frá Tónskóla þjóðkirkjunnar undir leiðsögn Beötu Joó.
Árið 2015 lauk hann miðprófi á píanó með hæstu einkunn sem þá var gefin á landsvísu. Pétur Ernir hefur hlotið margar viðurkenningar á ferlinum, hann hlaut 3. verðlaun í píanókeppni Íslandsdeildar EPTA í Kópavogi árið 2015. Hann hefur hlotið þrenn verðlaun á Nótunni uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem fram fer í Hörpu ár hvert, þar af aðalverðlaun Nótunnar í ár 2018 fyrir eigin útsetningu. Verk Péturs er byggt á stefjum úr söngleiknum Wicked og útsett fyrir tvo flygla.
Pétur Ernir hefur komið víða við í list sinni. Hann hefur leikið aðalhlutverk hjá Litla leikklúbbnum og leikfélagi MÍ, verið tónlistarstjóri, meðleikari með allflestum kórum svæðisins, útsett og samið. Hann hefur æft ballet í nokkur ár og tekið þátt í ótalmörgum sýningum.
Margrét Lilja
milla@bb.is