Þrándar í götu

Ólafur Bjarni Halldórsson.

Öll höfum við einhvern tímann heyrt máltækið að vera „þrándur í götu“ þótt trúlega færri viti að máltækið er komið frá frændum okkar og bestu vinaþjóð, Færeyingum úr Færeyinga sögu, þar sem Þrándur karlinn í Götu (fær: Tróndur í Gøtu) barðist með Þórshamri gegn kristniboði Ólafs helga. En Gøta er í dag þorp í Færeyjum og þaðan kom til Íslands ástsæl söngkona, Eivør Pálsdóttir.

En svo horfið sé til nútímans, þá hafa í dag fjölmargir þrándar verið settir í götu Vestfirðinga í viðleitni þeirra til að þróa samfélagið og snúa við þeirri óheillaþróun sem lengi hefur blasað við byggðum Vestfjarða. Skýrasta dæmið sem við höfum séð að þetta er ekkert náttúrulögmál blasir við á sunnanverðum Vestfjörðum. Kannski verður því best lýst með að deyfð og drungi hafi breyst í bjartsýni og framfarahug. Störfum hefur fjölgað og þar með fólki, leikskólar fyllast af börnum. Lúxusvandamál eins og skortur á húsnæði fyrir þá sem vilja flytjast í lítil en vaxandi samfélög er staðreynd.

Hvað veldur þessum viðsnúningi? Svarið því því er ósköp einfalt. Þau gæði og möguleikar sem svæðið hefur upp á að bjóða hafa verið virkjuð til að bæta skilyrði fólks til lifa því lífi sem nútíma samfélög gera kröfu til. Dugmikið fólk hefur fjárfest í atvinnugrein sem hefur vaxið hraðast í íslensku samfélagi – ferðaþjónustu. Öllum er þó ljóst að á Vestfjörðum, eins og víðar á Íslandi, er veðurfar þrándur í götu þess að að þessi atvinnugrein geti staðið undir mörgun störfum árið um kring. Það getur hins vegar önnur atvinnugrein sem án efa á fyrir sér að vaxa yfir höfuð okkar elstu atvinnuhátta, sjósókn, fiskvinnslu og landbúnaði. Hér er að sjálfsögðu verið að tala um fiskeldi sem vegna ört vaxandi eftirspurnar og þarfa fyrir aukið fæðuframboð fer vaxandi um allan heim. Þeir sem hafa fylgst með þróun fiskeldis hafa ekki komist hjá að sjá byltingarkenndar breytingar. Á níunda og tíunda tug síðustu aldar gerði vanþekking út af við tilraunir til að byggja greinina upp hér á landi og niðurstaðan var, að segja má, algjört gjaldþrot greinarinnar.

Byltingarkennda breytingin felst einkum í því að þekking og fjármunir erlendis frá hafa nært greinina og gefið henni gífurlega vaxtarmöguleika. Það er þetta sem litlu samfélögin á Suðurfjörðum Vestfjarða eru að njóta góðs af í dag. Vitanlega munu þeir sem eru á móti erlendri fjárfestingu á Íslandi segja strax. „Já, en arðurinn fer allur úr landi.“ Því er til að svara að eðli þessarar greinar er það að mörg ár líða þar til gera má ráð fyrir að hún skili eigendum sínum arði, en á meðan verður til mikil fjármunamyndun í því landi sem fjárfest er í. Það væri eitthvað óeðlilegt við atvinnugrein þar sem fjármunamyndunin í landinu væri ekki mun meiri en sá arður sem kann að vera fluttur úr landi. Það er heldur ekkert lögmál að erlendir aðilar sem hugsa til framtíðar þjarmi að sínum rekstri með óhóflegum arðgreiðslum. Sá möguleiki er alveg eins fyrir hendi að þeir sjái ný tækifæri á Íslandi og fjárfesti í þeim. Nánast allar þjóðir sem vilja efla atvinnulíf síns lands gera erlendum aðilum kleift að fjárfesta en að sjálfsögðu á regluverk um þær, sem og aðrar fjárfestingar, að hamla og koma í veg fyrir misnotkun.

Vestfirðingar horfa í dag til þriggja þátta til að marka veginn til betra mannlífs. Uppbyggingu og eflingu fiskeldis, aukins öryggis í raforkumálum og bættar samgöngur. Þrándar í götu þessarar framfarasóknar hafa sömuleiðis verið þrír. Stofnanakerfi okkar, sjálfskipaðir áhugamannahópar sem vilja hafa vit fyrir okkur og síðan duglitlir stjórnmálamenn. Birtingarmyndir þessa hafa verið þær að stofnanir hafa sest á þessi mál og tafið þannig framgang þeirra. Áhugamenn og landeigendur hafa verið iðnir við að kæra og hefur þannig tekist að koma í veg fyrir lífsnauðsynlegar umbætur í samgöngumálum. Þegar kærumál duga ekki til er gripið til þess ráðs að láta á það reyna hvort skrásetningar manna til búsetu á rafmagnslausu og veglausu eyðibýli standist íslensk kosningalög.

Vestfirðingar sýndu það ótvírætt á geysifjölmennum borgarafundi sem haldinn var á Ísafirði þann 25. september 2017 að fólkið ætlar ekki að una því að öll þau mál sem til framfara horfa á Vestfjörðum séu tafin eða troðin niður. Svo vildi til að fjórir ráðherrar sátu þar við háborð og lýstu sig allir samþykka þeim þremur málum sem voru í brennidepli á fundinum þ..e virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og veglagning samkvæmt tillögu Vegagerðar ríkisins um Teigsskóg. Allir þessir fjórir ráðherrar eiga enn sæti á Alþingi og tveir þeirra sitja í ríkisstjórn sem var mynduð skömmu eftir síðustu kosningar til Alþingis. Þá vaknar sú spurning hvað hafa þessir ráðamenn okkar og aðrir alþingismenn sem sátu fundinn gert síðan til að koma þessum málum áleiðis sem þeir sögðust styðja? Hafi þeir unnið að framgangi þeirra síðan ættu þeir endilega að skýra frá því og hvað þeim hefur orðið ágengt.

Vestfirðingar munu ekki láta bjóða sér upp á kyrrstöðu og tafir þegar tækifæri til framfarasóknar blasa við. Borgarafundurinn markaði aðeins upphaf baráttu sem ekki verður stöðvuð frekar en straumar hafs og fljóta. Næsta aðgerð er fundur við helsta samgönguhlið Vestfjarða, brúnni yfir Gilsfjörð. Þar er fólki boðið að koma á annan í hvítasunnu þann 21. maí klukkan fimmtán um eftirmiðdag. Þetta verður táknrænn fundur þar sem meðal annars ályktun verður borin upp um að hrinda í framkvæmd þeim málum sem munu gera Vestfirði að þeirri blómlegu byggð sem ungri og uppvaxandi kynslóð finnst eftirsóknarvert að lifa og starfa. Hittumst í Gilsfirði!

Ólafur Bjarni Halldórsson

DEILA