Nýjustu vendingar í Árneshreppi gera sjálfsagt alla sveitarstjórnarmenn hugsi. Sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga, sem og varnaleysi gagnvart ytri öflum sem mögulega geta svipt sveitarfélögin þessum rétti, er sjálfsagt versti ótti allra sveitarstjórnarmanna. Þessi tilfinning hefur ekkert að gera með pólitíska ása vinstri eða hægri, frjálslyndi eða íhald, eða stakt verkefni, með eða á móti.
Heldur mannlega tilfinningu ábyrgðar og réttlætis.
Árneshreppur er fámennt sveitarfélag sem hefur glímt við neikvæða byggðaþróun um lengri tíma. Sveitarfélagið er veikt vegna þessa, og því mögulega auðveld bráð ytri afla sem sjá sveitarfélagið sem verkfæri til að fá hagsmunum sínum framgengt.
Vestfirskir sveitarstjórnarmenn þekkjast vel, hittast reglulega og vinna saman að sameiginlegum verkefnum. Stundum eru þeir sammála og stundum ósammála. Sameiginleg aðdáun vestfirskra sveitarstjórnarmanna á kjörnum fulltrúum Árneshrepps, staðfastri baráttu þeirra fyrir framtíð byggðalagsins og dugnaði til að halda uppi þjónustu og fagmennsku gagnvart íbúum og stjórnsýslu, er óumdeild.
Virkjanaáform í sveitarfélaginu er stórt og umdeilt mál. Aldrei er mikilvægara en einmitt þá að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga sé virtur, lýðræðið sé óáreitt og niðurstaðan sé virt á forsendum vandaðra og réttlátra vinnubragða. Sáttin verður fyrst og fremst borin fram á forsendum þess hvernig staðið var að úrvinnslunni, ekki sjálfri niðurstöðunni.
Gróft inngrip í kosningaferli Árneshrepps síðastliðna daga er einungis til þess fallið að kljúfa endanlega veikburða sveitarfélag í herðar niður.
Gróft inngrip í kosningaferli Árneshrepps síðastliðna daga fordæma allir kjörnir sveitarstjórnarmenn, af ábyrgðar- og réttlætistilfinningu gagnvart eigin sveitarfélagi.
Gróft inngrip í kosningaferli Árneshrepps síðastliðna daga er hvorki lýsandi fyrir Hvalárvirkjun eða mótstöðu gegn henni.
Hitt heldur lýsir hún virðingarleysi fyrir íbúum Árneshrepps, skeytingarleysi gagnvart sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélagsins og fádæma dómgreindarleysi þeirra sem telja gjörninginn vera náttúruvernd til framdráttar.
Pétur G. Markan
Formaður Vestfjarðastofu / sveitarstjóri Súðavíkurhrepps