Þakklátur starfsmönnum fyrir gott samstarf

Gísli Halldór Halldórsson.

Gísli Halldór Halldórsson hefur verið bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar undanfarin fjögur ár. Nú verður hann frá að hverfa en BB fýsti að vita hvernig úrslit kosninganna lögðust í hann og hvað tekur núna við.

„Við erum mjög óánægð með úrslit kosninganna, eins og gefur að skilja, enda teljum við okkur hafa skilað góðu verki undanfarin fjögur ár og tekið þátt í að snúa við þeirri neikvæðu þróun sem hér hefur verið frá síðustu öld. Við vonuðumst til að okkar góðu verk myndu skila sér í auknu fylgi. Okkur hefur greinilega mistekist að koma því fyllilega til skila til kjósenda hverju Í-listinn hefur áorkað, þó framfarir á flestum sviðum ættu að vera sýnilegar,“ segir Gísli.

„Það er hinsvegar sannfæring mín að meirihlutasamstarf B-lista og Í-lista yrði til þess að áfram héldi sú uppbygging og viðsnúningur sem orðið hefur og jafnvel gott betur. Framsóknarfólk er okkur samstíga um býsna margt og við höfum stutt ýmsar hugmyndir þeirra á síðustu árum, s.s. um niðurfellingu gatnagerðargjalda. Framsókn myndi auk þess bæta heilmikilli breidd í það sem Í-listinn hefur fram að færa. Við getum t.d. nefnt þá áherslu sem setja þarf á þjónustu við lögbýli og hinar dreifðu byggðir Ísafjarðarbæjar sem eru utan þéttbýlis. Þar hafa framsóknarmenn góða innsýn í málin, en Í-listinn hefur að mörgu leyti verið að afla sér betri skilnings á málunum þessi síðustu fjögur ár. Sveitirnar eru mikilvæg búsvæði, nú þegar fjölga fer í sveitarfélaginu.“

„Síðustu fjögur ár eru reyndar einu árin í tuttugu og tveggja ára sögu sveitarfélagsins sem Í-listinn hefur fengið að stjórna en við höfum lært mikið og hratt. Það þarf heldur enginn að velkjast í vafa um að hjá Í-listanum er samankomin gífurleg reynsla af bæjarstjórnarmálum í samanburði við hina framboðslistana.“

„Það sem maður óttast mest er að meirihlutasamstarf verði með B-lista og D-lista. Hjá D-lista er í gangi ægilega mikil flækja margskonar sérhagsmuna sem mun trufla og tefja fyrir mörgum góðum verkum í sveitarfélaginu. Fimm manna meirihluti verður auk þess veikari en 6 manna. Það segir sig sjálft. Það er vissulega slæmt að tapa kosningunum en meirihluti B-lista og D-lista væru að mínu mati hinar raunverulegu sorgarfregnir.“

„Ég hef engar áhyggjur af minni persónulegu framtíð. Mér þykir vissulega leiðinlegt að þurfa að fara frá því verki hálfnuðu sem ég hef tekið þátt í með starfsfólki bæjarins, að efla og endurbæta starfsemi sveitarfélagsins og rekstur þess. Fjögur ár eru bara of stuttur tími til að gera þetta almennilega. Það tekur tíma að kynnast starfseminni vel, gera skynsamlegar breytingar og stjórna þeim farsællega. Ég er fullur þakklætis til starfsmanna fyrir gott samstarf og mikinn árangur, sem hefur skilað kostnaðarlækkun upp á milljónatugi án skerðinga í þjónustu. Ég hefði svo gjarnan viljað halda áfram róðrinum með þessu góða fólki.“

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA