Strandapósturinn 50 ára!

Afmælisútgáfan.

Ársritið Strandapósturinn sem gefið er út af Átthagafélagi Strandamanna er kominn út í 50. skipti og fagnar því hálfrar aldar afmæli. Af því tilefni heyrði blaðamaður BB í Jónu Ingibjörgu Bjarnadóttur framkvæmdastjóra Strandapóstsins: „Strandapósturinn kom að vísu fyrst út árið 1967 en eitt árið ver ekki til neitt efni í Strandapóstinn svo það datt eitt ár úr. Þess vegnar er þessi ruglingur og bækurnar núna orðnar 50,“ segir Jóna.

Í ritnefndinni núna eru Kristín Einarsdóttir, Hlíf Ingibjörnsdóttir, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Svanhildur Guðmundsdóttir og Þorkell Ólafsson. Heiðrún Sverrisdóttir sem hafði verið í ritnefnd í 26 ár hætti störfum í maí og segir Jóna að hún eigi miklar þakkir skildar fyrir góð störf.

Það er mikil ánægja með Strandapóstinn í ár: „Bókin í ár fær mjög góðar viðtökur og þykir einstaklega falleg. Í henni eru greinar eftir gamla rótgróna greinahöfunda ásamt fjórum nýjum höfundum. Guðlaugur Jón Bjarnason myndlistarmaður gerði kápuna en hana prýðir olíumynd af Lambatindi, hæsta fjalli Strandasýslu, og Ægishjálmurinn er svo í forgrunn. Þannig bókin er í góðum afmælisbúningi. Ég fékk hugmyndina af kápumyndinni fyrir ári síðan. Ægishjálmurinn hefur ætíð verið mér hugleikinn og ég vann mikið með hann fyrir 20 árum síðan þegar ég var að vinna með leirkrúsir og seldi norður á Ströndum. Góðir hlutir gerast hægt,“ segir Jóna og hlær. „Guðlaugur vildi koma á staðinn til að sjá viðfangið, hvað hann væri að fara að fást við. Hann fór upp í Seljárdal og kom sér fyrir þar og rissaði þetta upp og málaði svo í verkið þegar hann kom heim. Hann segir sjálfur að hann hafi glímt aðeins við Ægishjálminn en hann vill meina að hann hafi orðið fyrir galdraáhrifum í restina og það er svolítil svona hreyfing í honum. Það er það sem mér finnst svo magnað, það er eins og hann komi niður af himnum,“ segir Jóna ánægð. En með öllum bókunum fylgir bókamerki þar sem má finna upplýsingar bæði um Lambatind og Ægishjálminn.

Kaffidagur Strandamanna sem er hefð sem er jafngömul Strandapóstinum var haldinn 6. maí í Haukahúsinu í Hafnarfirði. Þar las ritnefndin upp úr Strandapóstinum og sýndi myndir sem vakti mikla lukku. Það voru um 300 manns sem mættu þar í kaffi.

Það er ýmislegt skemmtilegt fram undan hjá Strandapóstinum og greinilega ýmsar nýjungar. „Við létum útbúa nafnspjöld fyrir alla ritnefndarmenn í þeim tilgangi að auglýsa okkur og vera sýnilegri á sölustöðum svo það sé hægt að leita beint til okkur,“ segir Jóna. Auk þess er í smíðum bókastandur sem verður í Kaupfélaginu á Hólmavík, sem er stærsti sölustaður Strandapóstsins. Jóna segir að þau horfi fram á veginn og til standi að finna yngri greinarhöfunda í bland við þá gömlu með það að leiðarljósi að ná betur til yngri kynslóðarinnar.

Jóna hefur einungis verið framkvæmdastjóri Strandapóstins í ár en segir það skemmtilegt starf: „Jón M. Bjarnason Strandamaður var upphafsmaður Strandapóstsins en sá aðeins um hann í ár áður en hann lést og þá tók sonur hans við. Ég er tíundi framkvæmdarstjórinn á þessum 50 árum og fyrsta konan. .Þetta er skemmtilegt, en var ekki eitthvað sem ég átti von á að eiga eftir að taka að mér. Þetta er samt mikil yfirlega og ekki síst fyrir ritnefndina. Þetta er mikil vinna hjá henni að lesa yfir og sjá til þess að allt sé rétt,“ segir Jóna um vinnuna.

„Við erum mjög stolt af bókinni okkar. Markmiðið er að hlusta á raddir áskrifenda og við tökum við öllum ábendingum. Við verðum að líta fram á við, gefa ungu fólki gaum og vanda til verka ef Strandapósturinn á að lifa önnur 50 ár,“ segir Jóna að lokum.

Dagrún Ósk

dagrun@bb.is

DEILA