Stefnuskrá Nýrrar-Sýnar í Vesturbyggð

Iða Marsibil.

Ný-Sýn í Vesturbyggð hefur nú kynnt stefnuskrá sína. Þau leggja áherslu á að hlusta, fræðast, taka ákvarðanir og framkvæma. Stefnuskrá þeirra er einföld en markviss og svohljóðandi:

Lýðræði

Það er mikið metnaðarmál hjá Nýrri-Sýn að það sé virkt lýðræði í Vesturbyggð og að við fáum að kjósa um menn og málefni í komandi kosningum. Orðið lýðræði er samsett úr orðunum lýður sem merkir fólk og ræði sem þýðir vald eða “vald fólksins”. Við teljum það hættulegt þegar valdhafar telja að fólkið hafi ekki nægilegan skilning á málum er varða okkur öll.

Opin stjórnsýsla

Vefsíða sveitafélagsins verði færð til nútímans og þar verði aðgengilegar upplýsingar um vinnslu málaefna sem og önnur mál er varða daglegt líf íbúa.
Þar verði allar upplýsingar um fjármál, framkvæmdir og annað sem er á döfinni hjá sveitafélaginu. Verkefni fyrir sveitarfélagið verði boðin út.
Allir fundir bæjarstjórnar verði teknir upp og aðgengilegir á vef sveitafélagsins.
Óupplýsandi fundargerðir heyri sögunni til.

Heildstæð stefna sveitarfélagsins

Vinna heildstæða stefnu fyrir sveitarfélagið miðað við vöxt þess og viðgang.
Bæta þjónustuna við íbúana frá vöggu til grafar.
Móta heilstæða stefnu um hvernig við viljum hlúa að (h)eldri íbúum sveitarfélagsins.
Móta skýra stefnu og vinna að og virkja móttökuáætlun/aðlögunar áætlun fyrir nýja íbúa innlenda sem erlenda til að tryggja að þeir fái aðgengilegar upplýsingar og skapa þeim aðstæður til að mynda félagsleg tengsl. þannig stuðlum við að öflugu samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna.
Vesturbyggð er landbúnaðarhérað sem við þurfum að hlúa að. Málefni dreifbýlisins verði sérstaklega tekin fyrir á kjörtimabilinu enda mikil sóknarfæri í sveitinni.

Heilbrigðismál

Berjast fyrir bættri þjónustu á HSP og fastráða lækna og hjúkrunarfólk.
Berjast fyrir aukinni læknaþjónustu á Tálknafirði og Bíldudal og miða þar við aukin umsvif í samfélögunum.
Fjölga komum sérfræðinga á heilbrigðisstofnuna til að minnka ferðalög íbúanna vegna læknisþjónustu og lengja opnunartíma apóteksins.
Samgögnur Við munum beita miklum þrýstingi á að vegamálin á sunnanverðum Vestfjörðum verði leyst.

Fjármál

Ný-Sýn vill ábyrga og markvissa fjármálastjórn í Vesturbyggð og gæta aðhalds í rekstri. Vinna að stefnumótun í fjármálum og framkvæmdum til langs tíma bæði nýframkvæmdum og endurbótum á þeim mannvirkjum sem til staðar eru.
Ný-Sýn vill samtal milli fyrirtækja á svæðinu og Vesturbyggðar við gerð þarfagreiningar þar sem farið er yfir núverandi og verðandi þarfir allra aðila á þessum vaxtartímum.
Ný-Sýn leggur áherslu á að miðla upplýsingum til íbúa um öll mál svo öllum sé ljóst hvert ferðinni er heitið.

Fræðslumál

Skóla- og fræðslumál eru einn mikilvægasti málaflokkur sveitarfélagsins.
Við gerum kröfu á frammúrskarandi skólakerfi, leggjum áherslu á samfellu milli skólastiga og hamingjusama nemendur sem eru tilbúnir að takast á við framtíðina í leik og starfi.
Vera til fyrirmyndar hvað varðar aðbúnað í skólum á öllum skólastigum bæði úti og inni.
Það er grunnurinn að framtíð okkar allra að hlúa vel að leik- og grunnskólabörnum.

Umhverfismál

Sjálfbærni er okkar leiðarljós í uppbyggingu til framtíðar.
Við viljum auðvelda íbúum og ferðamönnum flokkun og endurvinnslu með upplýsingagjöf, bættum opnunartíma og hafa losun eftir þörfum í sveitum.
Vinna að samstarfi Vesturbyggðar og fyrirtækjanna í umhverfismálum.
Efla umhverfisvitund íbúanna varðandi útblástur og fleira.
Hlúa að hinum einstöku náttúruperlum svæðisins.

Menning – íþróttir

Efla tónlistarskólann með bættum aðbúnaði í Vesturbyggð.
Bjóða upp á öflugra listnám í sveitarfélaginu.
Meiri afþreyingu fyrir ferðafólk til að lengja dvöl þeirra í Vesturbyggð..
Öflugt íþróttastarf fyrir alla með auknu þjónustustigi við íþróttamannvirki.
Merking gönguleiða, útbúa göngukort fyrir íbúa/ferðamenn
Meta áhrif aukins opnunartíma sundlauga yfir sumartímann.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA