Bæjarráð Vesturbyggðar ákvað á fundi þann 15. maí að fjárfesta í nýrri slökkvibifreið eins og sagt er frá á heimasíðu bæjarfélagsins. Bíllinn er af gerðinni MAN TGS 540 og er með tvöföldu húsi, tekur 4000 lítra af vatni og 400 lítra af froðu. Dælan á bílnum ræður við að dæla 4000 lítrum á mínútu og í bílnum verða þrír reykköfunarstólar, klippur, lyftipúðar auk alls þess sem venjulegt er að hafa í slökkvibílum.
„Við erum að skipta út Bedford slökkvibíl sem er orðinn mjög gamall,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Vesturbyggð. „Á Patreksfirði eigum við líka tankbíl sem er gamall mjólkurbíll og einn tækjabíl sem er notaður fyrir klippur. Á Bíldudal er gamall Iveco slökkvibíll. Núna er verið að taka fyrsta skrefið í endurnýjun bílaflotans enda eru þrír af fjórum slökkvibílum okkar í fornbílaklúbbnum. Næst stendur til að endurnýja bílinn á Bíldudag,“ segir Davíð að lokum.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com