Netlistasýning opnar 1. maí

Hún Solveig Edda Vilhjálmsdóttir býr á Ísafirði. Sem er svosem ekki í frásögur færandi nema hvað hún er feikna fær myndlistakona og ein þeirra sem enn málar með olíu á striga. Solveig Edda er hluti af teymi hjá umboðsskrifstofu fyrir listafólk sem kallast Silty art. Silty art sér um að koma verkum hennar og annarra á framfæri og 1. maí opnar listasýning hjá þeim á netinu. Á sýningunni verður hægt að sjá verk Solveigar, auk verka eftir Victor G. Cilia, Tómas Ó. Malmberg, Finn P. Fróðason, Alexander A.M. og Rebekku Guðleifsdóttur.

En af hverju ákvað Solveig Edda að nýta sér þjónustu Silty art? Hún sagði í samtali við BB að hún hefði sífellt fundið meira og meira fyrir því hversu flókið samspil það væri að skapa list og selja hana og hefði þess vegna fundið þörf fyrir umboðsaðila. „Því markaðssetning er allt annar prósess en sá að vera listamaður,“ segir Solveig Edda.

„Mér hefur alltaf tekist að selja eitthvað af verkunum mínum á hverju ári, stundum meira, og stundum minna. En líklega minna, vegna þess að mér finnst sá hluti bara erfiður. Það að þurfa að verðleggja og „selja sig“ er ótrúlega þreytandi prósess. Sérstaklega ef innblásturinn fyrir viðkomandi sýningu eða verk stendur mér mjög nærri. Sem hann gerir yfirleitt,“ segir Solveig. Hún velti því jafnframt fyrir sér hvort það hafi eitthvað með blygðunarkennd að gera, þrátt fyrir að sú tilfinning sé mjög fjarri þegar hún skapar.

„Mér finnst líka mjög leiðinlegt að röfla um eigin verk eftir að þau eru fullkláruð. Þannig að Silty art er fullkomið fyrir mig. Þeir skilja viðkvæmni listamannsins og að það sem ég þarf mest til að geta skapað er tími og friður. Það er mikið lán fyrir mig að vera hjá þeim því ég virðist hafa endalausan tíma í rannsóknarvinnu og listsköpun núna,“ segir Solveig og það verður spennandi að fylgjast með sýningunni sem opnar 1. maí á slóðinni: https://www.siltyart.com

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA