Kynleiðréttingarferlið lífsnauðsynlegt

Veiga Grétarsdóttir er transkona sem býr á Ísafirði. Hún hefur gengið í gegnum fjölmargar sársaukafullar aðgerðir til að geta lifað því lífi sem hún kýs. Veiga var svo góðhjörtuð að deila hluta af þessari reynslu sinni með blaðamanni BB og segja líka frá því hvernig var að alast upp með þá tilfinningu að eitthvað væri rangt.

„Kynleiðréttingarferlið hófst formlega í janúar 2014. Þá bjó ég í Noregi og leitaði til heimilislæknis sem framvísaði mér áfram til sálfræðings. Þá byrjaði þetta ferðalag sem lauk formlega núna í febrúar 2018,“ segir Veiga. Ferðalagið hefur verið erfitt á margan hátt fyrir Veigu og líkamlegi sársaukinn mikill. Hún fór í brjóstastækkun 2015 þar sem brjóstvöðvarnir voru rifnir frá og sílikonpúðar settir þar undir. Stóra aðgerðin, þar sem kynfærunum er breytt og líkamleg kynleiðrétting fer fram, var gerð í nóvember 2016. „Ég fann kannski ekki fyrir svo miklum sársauki þá, því fyrstu fimm sólarhringana lá ég kyrr á bakinu mænudeyfð og mátti ekki standa upp. Ég var á morfíni og fékk líka mikið af verkjalyfjum. Á sjöunda degi fór ég í sturtu og ég held ég hafi starað niður í hálftíma. Loksins!“ segist Veiga hafa hugsað og léttirinn var ólýsanlegur. Hún segir að sársaukinn hafi verið mestur þegar verið var að fjarlægja skeggið með laseraðgerðum. Þá brenndist húðin illa í hvert skipti en meðferðin tók sex vikur í það heila.

Eins og áður var sagt þá lauk ferðalaginu ekki formlega fyrr en núna árið 2018 þegar Veiga gat breytt kyni sínu í Þjóðskrá. „Ég er búin að vera skráð sem karlmaður alla tíð. Ég flutti aftur til Íslands í janúar 2016 en vegna laga gat ég ekki breytt kyni mínu. Til að fá að breyta kyni í þjóðskrá þarftu að uppfylla ákveðin skilyrði, og eins til að fá að fara í kynleiðréttingaraðgerð. Til að fá að fara í aðgerðina þarftu að eiga lögheimili á Íslandi, vera sjúkratryggð og vera með skýrslu frá teymi á Landsspítalanum sem segir að þú eigir við kynáttunarvanda að stríða og hafir rétt á þessari meðferð. En til að breyta kyni í þjóðskrá þarftu að uppfylla allt þetta þrennt, sem og sýna fram á vottorð um að það sé ekki búið að svipta þig sjálfræði og þú hafir átt lögheimili á Íslandi í minnst tvö ár samfleytt. Og ég strandaði á því. Þannig að ég var búin að bíða eftir því að tvö ár væru liðin frá því að ég flutti heim og núna í febrúar 2018 var ég loksins búin að uppfylla þessi fimm skilyrði til að fá að breyta kyninu. Og ég bara starði á tölvuskjáinn þegar það gerðist. Loksins kona. Ekki karlmaður.“

Veiga segist ekki hafa áttað sig á því sem barn að hún væri í vitlausum líkama, einfaldlega vegna þess að hún vissi ekki að það væri hægt. Barnið Veiga vissi bara að það var eitthvað sem átti ekki að vera. „Ég var orðin 25 ára þegar ég komst að því hvað transgender er og það var um leið og internetið kom. Ég var á tímabili alltaf að reyna að skilgreina mig sem klæðskipting, byrjaði að sanka að mér kvenmannsfötum og fela fyrir öðrum þegar ég var unglingur. Svo fór ég að klæða mig uppá, mála mig og laumast út á lífið. Helst eftir að það var orðið dimmt og kom mér svo heim áður en birti aftur. Ég passaði mig á því að rekast ekki á neinn sem ég þekkti. Þetta var mikill feluleikur og spennandi og mér leið aldrei betur en þegar ég var í kvenmannsfötum. En svo inn á milli þá losaði ég mig vil kvenmannsfötin og sagði við sjálfa mig að nú myndi ég hætta þessari vitleysu og fara að lifa eðlilegu lífi. Svo var þetta bara eins og tennisbolti alla ævi.“

Hún segir að um leið og hún hafi heyrt orðið transgender í fyrsta skiptið hafi hún geta gúglað til að fá einhver svör. En kynleiðréttingarferlið hafi bókstaflega verið lífsnauðsynlegt, hún gat ekki lifað lengur í röngum líkama. Reyndi jafnvel að taka eigið líf áður en hún horfðist í augu við sjálfa sig, ákvað að hætta að flýja og hóf ferðalagið sem lauk núna í vetur. Veiga segir að sem betur fer séu breyttir tímar í dag og ungt fólk miklu opnara fyrir öðrum. Það gildi þó alltaf að ef börn eru að reyna að átta sig á sjálfu sér, þá verði að styðja þau með öllum ráðum og dáðum.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA